Flóttamannahjálp Sameinuðu þjóðanna segir að frá 5. september sl., þegar samkomulag náðist um vopnahlé í Úkraínu, hafi 13 manns látist að meðaltali á degi hverjum.
Vopnahléssamkomulagið hefur staðið á algjörum brauðfótum en á undanförnum átta vikum hafa samtals 957 látið lífið í átökum í landinu.
Í skýrslu flóttamannahjálaparinnar kemur fram hvernig algjör lögleysa ríki í héruðunum Donetsk og Luhansk, sem eru undir stjórn uppreisnarmanna. Þetta kemur fram á vef BBC.
Jafnframt er vakin athygli á brotum sem stjórnarhersveitir eru sagðar bera ábyrgð á, en ásakanirnar eru sagðar byggðar á traustum grunni.
Stríðsátök brutust út í austurhluta Úkraínu í apríl á þessu ári þegar ríkisstjórnin í Kænugarði hóf hernaðaraðgerðir til að ná aftur svæðum sem uppreisnarmenn, sem eru hliðhollir Rússum, höfðu náð á sitt vald.