Páfi varar gráðuga við dómsdegi

Frans páfi varaði heiminn við því í dag að jörðin myndi ekki fyrirgefa þá misnotkun sem er á auðlindum hennar í ágóðaskyni. Hvetur hann þjóðarleiðtoga til þess að hafa stjórn á græðgi sinni og hjálpa fátækum. Að öðrum kosti væri hætta á dómsdegi þar sem náttúran myndi hefna sín. 

„Guð fyrirgefur alltaf en það gerir jörðin ekki,“ sagði Frans páfi á alþjóðlegri næringarráðstefnu sem nú stendur yfir í Róm. Á ráðstefnunni verður reynt að leita lausna á hungri, alþjóðlegri plágu sem snertir bæði fátæka og ríka. 

Það verður að gæta jarðarinnar svo hún svari ekki til baka með eyðingu, segir Frans páfi er hann ávarpaði fulltrúa 190 ríkja sem eru samankomnir í Róm á ráðstefnunni sem skipulögð er af matvælastofnun Sameinuðu þjóðanna, WHO.

Frans páfi er ötull stuðningsmaður fátækra og þeirra sem minna mega sín í heiminum.  Hann segir að heimurinn hafi veitt þeim sem glími við hungur allt of litla athygli. Enn búa 805 milljónir við hungur í heiminum. 

Eins er það sársaukafullt að sjá að baráttan við hungur og næringarskort skuli þurfa að glíma við forgangsmál markaðarins, þar sem hagnaður skiptir sköpum, segir páfi og talaði um áhrif framvirkra samninga á hrávörumarkaði þar sem spákaupmennska getur haft mikil áhrif á lífshorfur milljóna.  

„Hungrið bíður á götuhorninu... og biður um heilbrigt fæði. Við biðjum um reisn ekki ölmusu.“

Frans páfi hefur ítrekað ráðist gegn þeim sem hafa auðgast á spákaupmennsku, einkum þeim sem veðja á verð á matvælum með framvirkum samningum. Kaupsýslumenn sem oft hafa líf fjölmargra í hendi sér.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert