Ricky Jackson verður látinn laus úr fangelsi í Ohio á morgun eftir að hafa setið á bak við lás og slá í 39 ár. Dómurinn yfir honum byggði á lygi tólf ára gamals drengs um að Jackson og tveir aðrir hefðu myrt mann í matvöruverslun í Cleveland.
Jackson, sem er 57 ára að aldri, brast í grát þegar honum var kynnt niðurstaðan á þriðjudag. Jackson var dæmdur ásamt tveimur öðrum fyrir morðið á Harold Franks árið 1975 en Franks starfaði í matvöruversluninni. Dómurinn yfir þeim byggði á vitnisburði Eddie Vernon, sem var 12 ára á þeim tíma, sem sagðist hafa séð þremenningana ráðast á Franks.
Var í skólabíl ekki í versluninni
Vernon, sem er 51 árs í dag, dró vitnisburð sinn til baka fyrr á árinu og viðurkenndi að hann hefði ekki séð morðið. En vitnisburður Vernons var það eina sem tengdi Jackson við glæpinn.
Verjandi lagði fram beiðni í mars um að ný réttarhöld færu fram eftir að Vernon játaði fyrir presti að hann hefði verið farþegi í skólabíl á sama tíma og morðið var framið og er það í samræmi við það sem önnur vitni hafa sagt.
Saksóknari í Cuyahoga sýslu, Timothy McGinty, sagði við réttarhöldin á þriðjudag að án vitnisburðar Vernons væri ekki neitt til að byggja á. Jackson var því hreinsaður af sök fyrir dómara í Cuyahoga sýslu í gær.
Voru allir dæmdir til dauða við réttarhöldin 1975
Lögreglan í Cleveland tengdi saman .38 skammbyssu og grænan blæjubíl, sem sást við verslunina þar sem morðið var framið við mann sem var handtekinn þremur árum síðar (1978) fyrir annað morð og fleiri rán í verslunum að degi til. Hann var aldrei ákærður fyrir morðið á Franks, að því er segir í frétt Reuters.
Mennirnir sem einnig voru dæmdir fyrir morðið ásamt Jackson, bræðurnir Ronnie og Wiley Bridgeman, hfa einnig óskað eftir nýjum réttarhöldum en ekki er komin dagsetning á það hvenær þau fara fram. Ronnie Bridgeman var látinn laus árið 2003 en bróðir hans er enn í fangelsi.
Jackson var í upphafi dæmdur til dauða en refsingunni var breytt vegna galla í skjalagerð. Bridgemans bræðurnir voru á dauðadeild þar til Ohio ríki lýsti því yfir að dauðarefsingar brytu gegn stjórnarskrá árið 1978. Samkvæmt Reuters var annar þeirra á leið til aftöku eftir nokkra daga þegar úrskurður Ohio ríkis lá fyrir árið 1978.