Dómari í Texas hafnaði í gær beiðni um að fresta aftöku dæmds morðingja sem á við andleg veikindi að stríða. Maðurinn verður tekinn af lífi með banvænni sprautu hinn 3. desember næstkomandi.
Scott Panetti, sem hefur þjáðst af geðklofa í þrjá áratugi, nýtur stuðnings fjölmargra samtaka og einstaklinga. Má þar nefna Mental Health America, geðlækna, fyrrverandi dómara og saksóknara. Eins hefur Evrópusambandið hvatt ríkisstjóra Texas, Rick Perry, til þess að miskunna sig yfir Panetti.
Aftökur einstaklinga sem þjást af geðsjúkdómum ganga gegn almennri skoðun á mannréttindum og eru víða bannaðar á grundvelli mannréttinda, segir meðal annars í beiðni ESB.
Þrátt fyrir það hafnaði dómarinn, Keith Williams, því að veita lögmönnum meiri tíma til þess að endurmeta hvort Panetti væri sakhæfur. Hann var dæmdur árið 1995 fyrir að hafa skotið fyrrverandi tengdaforeldra sína til bana árið 1992.
Lögfræðingur hans, Kathryn Kase, segir að aldrei hafi átt að heimila Panetti að verja sig sjálfan í upphafi enda ætti hverjum að vera fullljóst að hann glími við alvarlegan geðsjúkdóm, geðklofa.
„Það hefði ekki átt að heimila honum að hafna samkomulagi sem hefði bjargað lífi hans. Nú á ekki að taka Panetti af lífi án þess að hann fái réttarhöld við hæfi,“ segir Kase.
Hún segir að þetta sé síðasti möguleikinn á að koma í veg fyrir siðlausan harmleik.
Eftir að Scott Panetti myrti tengdaforeldra sína hélt hann eiginkonu sinni og dóttur föngnum yfir nótt en gaf sig fram við lögreglu morguninn eftir. Þremur árum síðar fóru réttarhöldin fram yfir Panetti og óskaði hann eftir því að fá að verja sig sjálfur.
Fram kom við réttarhöldin að Panetti glímdi við persónuleikaröskun, ofskynjanir og ranghugmyndir og vegna þessa hefði hann verið lagður inn á sjúkrahús í tólf skipti. Hann var á afar sterkum geðlyfjum vegna geðklofa á þeim tíma.
Fyrrverandi eiginkona hans lýsti því við réttarhöldin hvernig Panetti hefði fyllst ranghugmyndum á erfiðu tímabili árið 1986 en þá hefði hann verið sannfærður um að djöfullinn hefði yfirtekið heimili þeirra og til þess að losna við kauða kveikti Panetti í verðmætum hlutum í eigu fjölskyldunnar. Þrátt fyrir þetta var hann úrskurðaður sakhæfur og dæmdur til dauða.