Skotinn til bana fyrir slysni

Lögregla í New York.
Lögregla í New York. AFP

Óvopnaður 28 ára gamall maður var skotinn til bana af lögreglu í New York borg í gærkvöldi.

Lögreglustjórinn Bill Bratton sagði í dag að lögreglumaðurinn sem skaut hafi verið nýr og að þetta hafi verið „algjört slys“.

Maðurinn sem lést hét Akai Gurley og var nýkominn inn í stigagang íbúðarhúss með kærustu sinni er hann var skotinn einu sinni í bringuna af lögreglumanninum. Það var klukkan 11:15 í gærkvöldi. Farið var með hann á sjúkrahús þar sem hann lést. 

Bratton sagði frá því í dag að fórnarlambið hafi verið saklaus og tengdist ekki glæpum á neinn hátt. 

„Það sem gerðist í gærkvöldi var óheppilegur harmleikur,“ sagði Britton í samtali við fjölmiðla. Sagði hann jafnframt að málið væri í skoðun hjá saksóknara Brooklyn umdæmis og lögreglunnar í New York. 

„Það lítur út fyrir að skotið hafi verið að slysni,“ bætti hann við. 

Gurley var skotinn er tveir ungir lögreglumenn voru við hefðbundna skoðun í húsinu, en það hefur oft verið vettvangur glæpa og morða.

Ljósin voru biluð á stigagangi hússins á sjöundu og áttundu hæð sem gerði það að verkum lögreglumennirnir sáu illa. Þó voru þeir báðir með vasaljós. 

Eftir að maðurinn var skotinn fundu lögreglumennirnir hann á fimmtu hæð þar sem kærasta hans hlúði að honum. Parið ætlaði upphaflega að taka lyftuna niður en ákváðu að nota stigann þar sem lyftan var of lengi að koma. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert