UKIP fær annað þingsæti

Mark Reckless ásamt eiginkonu sinni Catriona
Mark Reckless ásamt eiginkonu sinni Catriona AFP

Flokkur breskra sjálfstæðissinna, UKIP, vann sitt annað sæti á breska þinginu í kosningum í gær í aukakosningum sem sagðar eru geta verið til marks um hvað sé framundan í komandi þingkosningum eftir hálft ár.

Mark Reckless var endurkjörinn á þing með 42% atkvæða í Rochester and Strood en hann sagði sig sig úr Íhaldsflokknum í september og hætti á þingi. 

Íhaldsflokkurinn háði harða kosningabaráttu í Rochester and Strood en niðurstaðan varð sú að UKIP hafði betur með 2920 atkvæða mun.

Mark Reckless fékk 16.867 atkvæði eða 42,1%. Frambjóðandi Íhaldsflokksins, Kelly Tolhurst, fékk 13.947 atkvæði (34,8%) sem þýðir að fylgi Íhaldsflokksins minnkaði um 14,4% í kosningunum, samkvæmt frétt Guardian.

Frambjóðandi Verkamannaflokksins, Naushabah Khan, fékk 6.713 atkvæði sem er  16,8% minna en í síðustu kosningum en alls fékk flokkurinn nú 11,7%. Frjálslyndir demókratar fengu einungis 349 atkvæði eða 0,9% sem þýðir að fylgi flokksins í kjördæminu minnkaði um 15,4%. Græningjar fengu 1692 atkvæði eða 4,2% sem er mikil aukning frá síðustu kosningum er flokkurinn fékk 2,7%.

Við munum færa þér landið þitt aftur

Reckless hvatti kjósendur til þess að kjósa UKIP í þingkosningunum í maí á næsta ári og standa á bak við stórsigur flokksins í þeim kosningum. Þar skipti ekki máli hvað reynt verði að sannfæra þá um. Það sem skipti máli sé að gera UKIP að svo stórum flokki í Westminster að jafnvægi náist í breskum stjórnmálum.  

„Ef þú trúir því að heimurinn sé stærri en Evrópa, ef þú trúir á sjálfstætt Bretland, komdu þá til okkar og við munum færa þér landið þitt aftur.“

Í aukakosningum í Clacton í Essex á Englandi sigraði Douglas Carswell, sem sagði sig úr Íhaldsflokknum 28. ágúst og gekk í UKIP. Carswell fékk 12.404 atkvæði, eða um 60%, en hafði fengið 12.068 atkvæði í síðustu kosningum árið 2010 þegar hann var frambjóðandi Íhaldsflokksins.

Frambjóðandi UKIP var einnig nálægt óvæntum sigri í Heywood og Middleton, kjördæmi á Stór-Manchestersvæðinu á Norðvestur-Englandi, í október. Aðeins munaði 617 atkvæðum á tveimur efstu frambjóðendunum í kjördæminu. Það hefur verið eitt af vígjum Verkamannaflokksins.

Stuðningurinn við UKIP hefur stóraukist á síðustu tveimur árum og er það einkum rakið til andstöðu flokksins við aðild Bretlands að Evrópusambandinu. Hann hefur einnig lagt áherslu á að herða þurfi reglur um innflytjendur.

Frétt Telegraph

Formaður UKIP Nigel Farage og þingmaður UKIP Mark Reckless í …
Formaður UKIP Nigel Farage og þingmaður UKIP Mark Reckless í Rochester AFP
Nigel Farage formaður UKIP sést hér fagna sigrinum
Nigel Farage formaður UKIP sést hér fagna sigrinum AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert