Ómarkvissar og mannskæðar drónaárásir

Pakistanar mótmæla flygildaárásum Bandaríkjamanna.
Pakistanar mótmæla flygildaárásum Bandaríkjamanna. AFP

Á tólfta hundrað manna hafa fallið í tilraunum til að taka 41 einstakling af lífi með árásum flygilda samkvæmt greiningu mannréttindasamtakanna Reprieve á þeim opinberu gögnum sem til eru um slíkar árásir. Engu að síður hafa bandarísk stjórnvöld nefnt slíkar árásir „markviss dráp“.

„Árásir flygilda hafa verið seldar bandarískum almenningi með þeirri fullyrðingu að þær séu „nákvæmar“. Þær eru hins vegar aðeins eins nákvæmar og upplýsingarnar sem þær byggja á. Það er ekkert nákvæmt við upplýsingar sem leiða til dauða 28 óþekktra manneskja, þar á meðal kvenna og barna, fyrir hvert einasta „illmenni“ sem Bandaríkin eltast við,“ segir Jennifer Gibson sem fór fyrir rannsókninni hjá Reprieve. Samtökin hafa látið breska blaðinu The Guardian greiningu sína í té.

Til dæmis féllu 874 í tilraunum til þess að fella 24 skotmörk í Pakistan. Sagt var frá því í nokkur skipti í fjölmiðlum að mennirnir sem átti að fella hafi verið drepnir þannig að ljóst er að nokkrar tilraunir voru gerðar til þess að fella þá. Meirihlutinn var hins vegar árangurslaus og kostaði 142 börn lífið. Aðeins sex skotmarkanna 24 féllu í árásum sem beindust að þeim sérstaklega.

Gögnin sem samtökin fóru yfir ná aðeins til hluta þeirra sem hafa verið drepnir í drónaárásum Bandaríkjanna. Þau greindu ekki gögn um árásir á einstaklinga sem aðeins var gerð ein tilraun til að drepa eða árásir sem beinast ekki að einstökum mönnum. Varkár áætlun samtakanna Alþjóðasamskiptaráðsins (e. Council on Foreign Relations) gerir ráð fyrir að 3.674 hafi farist í fimm hundruð drónaárásum Bandaríkjamanna fyrir utan Írak og Afganistan.

Frétt The Guardian af mannfalli í flygildaárásum

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert