Bandaríski herinn stefnir að því að um 150 skriðdreka og önnur brynvarin farartæki verði staðsett í ríkjum sem eiga aðild að Atlantshafsbandalaginu (NATO) og er hugsanlegt að einhver hluti þeirra verði sendur til aðildarríkja í Austur-Evrópu. Þetta hefur fréttaveitan AFP eftir bandaríska hershöfðingjanum Ben Hodges.
Fram kemur í fréttinni að þegar séu tæplega 50 brynvarin farartæki í eigu Bandaríkjamanna í NATO-ríkjum. Eitt hundrað M1 Abrams skriðdrekar og Bradley brynvagnar verða sendir til viðbótar til Þýskalands og hugsanlega ríkja í Austur-Evrópu. Farartækin munu taka þátt í heræfingum með herjum viðkomandi ríkja að sögn Hodges.
„Hermennirnir koma til ríkjanna til æfinga og síðan snúa aftur en búnaðurinn verður eftir,“ sagði hann. Bandaríkjamenn hafa tekið þátt í heræfingum í NATO-ríkjum í Austur-Evrópu undanfarin misseri með það að markmiði að sýna þeim stuðning vegna framgöngu Rússa gagnvart Úkraínu.