Liðsmenn Ríkis íslams grýttu tvo karlmenn til dauða í Sýrlandi í dag eftir að hafa sakað þá um samkynhneigð að sögn mannréttindasamtaka. Fram kemur í frétt AFP að um fyrstu aftöku hryðjuverkasamtakanna fyrir meinta samkynhneigð sé að ræða.
Fram kemur í fréttinni að annar mannanna, sem hafi verið í kringum tvítugt, hafi verið myrtur í bænum Mayadeen í austurhluta Sýrlands. Mannréttindasamtökin Syrian Observatory for Human Rights segir liðsmenn Ríkis íslams hafa gefið þá skýringu að þeir hafi fundið myndbönd í síma mannsins sem sýndi hann „í ósiðlegum athöfnum með karlmönnum“.
Hinn maðurinn, sem var 18 ára að aldri, var grýttur til bana í borginni Deir Ezzor eftir ásakanir um samkynhneigð. Fullyrt hefur verið á samfélagsmiðlum að mennirnir tveir hafi beitt sér gegn Ríki íslams og að liðsmenn hryðjuverkasamtakanna hafi aðeins notað ásakanir um samkynhneigð sem ástæðu til þess að myrða þá.
Ennfremur segir í frétt AFP að samkvæmt upplýsingum frá Sameinuðu þjóðunum hafi liðsmenn Ríkis íslams grýtt nokkrar konur til dauða fyrir að hafa stundað kynlíf utan hjónabands.