Komnir aftur niður á jörðina

Frá Upernavik, bæ með tæplega 1.200 íbúa á norðvesturströnd Grænlands. …
Frá Upernavik, bæ með tæplega 1.200 íbúa á norðvesturströnd Grænlands. Þingkosningar fara fram á Grænlandi á föstudaginn kemur og rúm 40.000 af 56.000 íbúum landsins hafa þá rétt til að greiða atkvæði. mbl.is/RAX

Þegar Grænlendingar gengu til þingkosninga í mars á síðasta ári var nýting náttúruauðlinda helsta kosningamálið og meðal annars var deilt um hvernig bregðast ætti við yfirvofandi innrás þúsunda kínverskra námuverkamanna. Nú, tæpum tveimur árum síðar, sjást engir kínverskir verkamenn, engin náma hefur verið tekin í notkun og ekkert bendir til þess að draumur Grænlendinga um olíuævintýri rætist á næstunni.

„Í kosningabaráttunni fyrir tveimur árum töluðu stjórnmálamennirnir eins og að leggja ætti göturnar gulli og þúsundir námumanna kæmu til Grænlands. Núna er öllum ljóst að veruleikinn er annar,“ sagði grænlenski jarðfræðiprófessorinn Minik Rosing í viðtali við TV2 í Danmörku. „Það leikur enginn vafi á því að bundnar voru alltof miklar vonir við það að námugröftur myndi bjarga efnahag Grænlands. Stjórnmálamennirnir tóku einfaldlega bjartsýnustu spárnar og trúðu því að þær myndu rætast, án þess taka tillit til þess að hér vantar enn bæði innviðina og sérþekkinguna sem þarf. Þótt möguleikarnir séu miklir er staðreyndin samt sú að það tekur áratugi að hefja námugröft og olíuvinnslu á Grænlandi.“

Auk olíuævintýrisins, sem virtist á næsta leiti, var talað um að nýta ætti verðmæt jarðefni á borð við gull, járn, blý, sink, demanta og aðra gimsteina, platínu, tantalít, úran, nikkel, tungsten, títan, silfur, marmara og kopar, auk þess sem reisa átti álver. Grænlendingar sáu fram á að geta stofnað sjálfstætt ríki á næstu árum og voru sagðir eiga möguleika á því að verða ein ríkasta þjóð í heimi héldu þeir vel á spöðunum.

Hvað sem síðar verður eru væntingarnar minni nú fyrir þingkosningar á Grænlandi á föstudaginn kemur og stjórnmálamennirnir eru aftur komnir niður á jörðina. Við þeim blasir sá veruleiki að engin náma er í notkun á Grænlandi. Þeirri síðustu, gullnámu í sunnanverðu landinu, var lokað á síðasta ári og um 80 manns misstu þá atvinnuna. Engin af arðvænlegustu námuvinnsluáformunum hafa orðið að veruleika, þeim hefur annaðhvort verið slegið á frest eða hætt hefur verið við þau.

Úranvinnsla bönnuð aftur?

Jafnaðarmannaflokkurinn Siumut vann mikinn sigur í síðustu kosningum undir forystu Alequ Hammond sem hét því að erlend fyrirtæki yrðu látin greiða háa skatta þegar í stað fyrir nýtingarrétt á námum. Hammond beitti sér einnig fyrir því að þingið samþykkti að afnema 25 ára algert bann við vinnslu á úrani, geislavirku frumefni sem er aðallega notað í kjarnaofna og kjarnavopn. Þegar bannið var í gildi var ekki hægt að heimila vinnslu á öðrum málmum félli úran til sem aukaafurð.

Stjórnin undirritaði einnig samning við námafélagið London Mining A/S, sem er fjármagnað af Kínverjum, um að það fengi einkaleyfi til að nýta járngrýti við Isukasa, um 150 km norðaustur af höfuðstaðnum Nuuk. Námufélagið fékk greiðslustöðvun í október vegna erfiðleika í námurekstri þess í Vestur-Afríku.

Afnám bannsins við vinnslu úrans hefur verið mjög umdeilt á Grænlandi og vinstriflokkurinn Inuit Ataqatigiit (IA), stærsti stjórnarandstöðuflokkurinn, vill efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort heimila eigi vinnslu á úrani sem aukaafurð. Samkvæmt nýlegri skoðanakönnun er IA með um 37% fylgi og flokkurinn er líklegur til að mynda næstu landstjórn eftir kosningarnar.

Politiken birti viðtal við Söru Olsvig, formann IA, um helgina þar sem haft er eftir henni að hún ætli að leggjast gegn námugrefti á Kuannersuit (Kvanefjalli), þar sem úran er í jörðu, jafnvel þótt Grænlendingar samþykki í atkvæðagreiðslunni að leyfa vinnslu á úrani sem aukaafurð.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert