Aftaka í Stokkhólmi

www.norden.org

Rúmlega þrítugur maður var skotinn til bana í bifreið sinni í Stokkhólmi síðdegis í gær. Vitni segja að morðið hafi ekki verið neitt annað en aftaka.

Maðurinn var skotinn til bana í Sollentuna-hverfinu. Vitni lýsa því að Mercedes Benz-bifreið hafi verið ekið upp að hlið bifreiðar mannsins og ökumaðurinn skotið hann nokkrum sinnum af stuttu færi.

„Þetta var hrein og klár aftaka,“ segir íbúi í hverfinu í samtali við Aftonbladet. Hann taldi að maðurinn hefði verið skotinn sjö eða átta sinnum.

Lögregla telur að morðið tengist jafnvel tveimur morðum nýlega í borginni. Nafn hins myrta nú hafi skotið upp kollinum í lögreglurannsóknum að undanförnu. Tveir eru í haldi lögreglu vegna morðsins í gær og verða þeir áfram yfirheyrðir í dag. 

Talsmaður lögreglunnar, Lars Byström, segir að þeir hafi verið handteknir skammt frá morðvettvanginum en það þurfi ekki endilega að þýða að þeir tengist morðinu beint.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert