Óttaðist um líf sitt

AFP

Lögreglumaðurinn,  Darren Wilson, sem skaut átján ára blökkumann, Michael Brown, til bana í bænum Ferguson í Missouri í ágúst, segist hafa óttast um líf sitt þegar hann skaut piltinn til bana. Þetta er meðal þess sem kemur fram í fyrsta viðtalinu sem Wilson veitir eftir lát piltsins. Viðtalið var birt á ABC-sjónvarpsstöðinni í gærkvöldi.

Wilson segir í viðtalinu við George Stephanopoulos, að Brown hafi óhlýðnast skipunum hans og að hann viti að hann hafi gert rétt. Samviska hans sé hrein og því sé hann ekki þjakaður eftir lát piltsins. Hann segir að litaraft Browns hafi ekki skipt neinu máli.

Í viðtalinu endurtók Wilson það sem fram kom við rannsókn málsins, að Brown hefði teygt sig inn í lögreglubifreiðina og reynt að ná byssunni af Wilson. Hann hefði óttast um líf sitt og beðið unglingspiltinn að færa sig. Í kjölfarið hófust stimpingar milli þeirra og sagði Wilson í viðtalinu að Brown hefði átt fyrsta höggið sem hefði hæft lögreglumanninn í andlitið. Wilson sagðist ekki vita hversu oft Brown hæfði hann í andlitið. 

Hann hefði teygt sig út um gluggann og náð að grípa um handlegg Browns. Þá hefði hann gert sér grein fyrir því hversu sterkur Brown væri. Hann hefði sjálfur verið eins og fimm ára gamall drengur að reyna að halda Hulk Hogan kyrrum. „Þetta sýnir hversu stór maður þetta var,“ sagði Wilson í viðtalinu við ABC í gærkvöldi. „Hann var mjög stór og mjög sterkur maður.“

Wilson er 195 cm að hæð og 95 kg en Brown var jafn hár og tæp 138 kg að þyngd. Þrátt fyrir að Wilson héldi í Brown þá náði sá síðarnefndi að kýla hann aftur í andlitið. Wilson segir að hann efist um að hann hefði lifa af fleiri slík högg frá Brown. Hann hefði því teygt sig í byssuna og sagt Brown að færa sig að öðrum kosti myndi hann skjóta. En Brown hefði hins vegar fært sig nær. 

Að sögn Wilsons færði Brown sig aftur þegar hann hafði skotið tveimur skotum og þá hefði Brown beygt sig fram og að hann hefði túlkað það sem Brown hafi ætlað sér að ráðast á hann. Hann hefði því skotið fleiri skotum. Brown varð fyrir alls sjö skotum, m.a. í höfuðið.

Drápið leiddi til mótmæla og óeirða í Ferguson í ágúst og vakti umræðu um hvort lögreglumenn í Bandaríkjunum beittu blökkumenn harðræði og misrétti. Mikil óánægja hafði verið meðal íbúa Ferguson í garð lögreglunnar vegna meintrar kynþáttamismununar. Af 53 lögreglumönnum bæjarins eru aðeins þrír blökkumenn, þótt 67% íbúa bæjarins séu blökkumenn og 29% hvítir menn.

Wilson agðist finna til með foreldrum Browns og hann bæði þau afsökunar. Það hefði ekki verið ætlun hans að drepa piltinn en það væri það sem hefði gerst þennan dag. Hann gæti í raun ekkert sagt sem léti foreldrunum líða betur.

Viðtalið verður birt í heild í þættinum Good Morning America á ABC-sjónvarpsstöðinni klukkan 7 að austurstrandartíma, klukkan 11 að íslenskum tíma en hægt er að horfa á styttri útgáfu þess hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert