Vígamenn á atvinnuleysisbótum

Vígamenn Ríkis íslams.
Vígamenn Ríkis íslams. AFP

Rúmlega tveir tugir vígamanna Ríkis íslams hafa þegið atvinnuleysisbætur frá danska ríkinu á sama tíma og þeir hafa verið staddir í Sýrlandi að berjast fyrir hryðjuverkasamtökin. Þetta upplýsti danska leyniþjónustan í dag samkvæmt frétt AFP.

Fram kemur í fréttinni að krafist hafi verið endurgreiðslu frá 15 af þeim 28 vígamönnum sem þegið hafi atvinnuleysisbætur á meðan þeir tóku þátt í stríðsátökum í Sýrlandi fyrir Ríki íslams. Enn væri verið að rannsaka mál átta manns og fallið hafi verið frá fimm málum vegna skorts á sönnunargögnum. Danska leyniþjónustan telur að rúmlega eitt hundrað danskir ríkisborgarar hafi yfirgefið Danmörku til þess að berjast í Sýrlandi.

Hins vegar teldi Naser Khader, fyrrverandi þingmaður, að talan sé mun hærri. tala leyniþjónustunnar miðaðist við stöðuna eins og hún hafi verið í júní í sumar. „Talan fer hækkandi í öðrum Evrópuríkjum þannig að hvers vegna ætti það ekki að vera raunin í Danmörku?“

Þýska leyniþjónustan telur að um 550 Þjóðverjar hafi gengið í lið með hryðjuverkahópum í Sýrlandi og Írak samkvæmt fréttinni og um 500 Bretar hafa gert slíkt hið sama að mati breskra ráðamanna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert