Hvað er til ráða ef þú færð það vandasama hlutverk að fá ungan mann ofan af því að vilja eyða öllu lífi á Vesturlöndum. Í Árósum myndir þú bjóða honum á kaffihús eða bókasafn og ræða um knattspyrnu.
Það gerir Mads að minnsta kosti en hann stýrir áætlun sem miðar að því að fá unga múslima, sem íhuga að ganga til liðs við öfgafullar skæruliðahreyfingar, ofan af því.
Að sögn Mads, sem biðst undan því að koma fram undir fullu nafni, er hann meðal annars að ræða við ungan mann sem var harðákveðinn í að fara til Sýrlands. Mads segir tilganginn með áætluninni að fá menn til þess að yfirgefa trú sína heldur að forðast öfgana og ná jafnvægi.
Samkvæmt samantekt Economist eru danskir ríkisborgarar næst fjölmennastir í hópi vestrænna borgara sem hafa farið til Sýrlands að berjast. Einungis Belgar eru fjölmennari.
Ungi maðurinn sem Mads er að ræða við ólst upp í hverfi þar sem innflytjendur eru í miklum meirihluta og telst hverfið til verri hverfa borgarinnar. Veggjakrot og brotnar rúður blasa alls staðar við - eitthvað annað en sú glansmynd sem flestir hafa af Danmörku sem er eitt ríkasta landið á Vesturlöndum.
Í Gellerupparke hverfinu er Grimhøj moskan en hún hefur meðal annars neitað því að afneita skæruliðasamtökunum Ríki íslam. Þykir þetta skýra að einhverju leyti hvers vega þrjátíu íbúar Árósa, þar sem einungis búa 324 þúsund manns, hafi nú þegar farið til þess að taka þátt í heilögu stríði í Sýrlandi. Alls hafa um 100 Danir tekið þátt í borgarastyrjöldinni í Sýrlandi, samkvæmt upplýsingum frá leyniþjónustu landsins. Að minnsta kosti 16 þeirra hafa týnt lífi og um 50 snúið heim aftur.
Þeim sem snúa aftur er boðið upp á endurhæfingu líkt og reynt er að fá þá sem stefna að þátttöku í borgarastyrjöldinni til þess að hætta við þau áform.
Mads talar um ungan mann sem snéri aftur frá Sýrlandi með sár á sálinni enda hafði hann upplifað og séð margt sem ungir Danir eru ekki vanir að upplifa. Þeirra samband hófst með fótboltaspjalli. En tilgangurinn var að koma í veg fyrir að ungi maðurinn myndi fara aftur til Sýrlands og beina honum fremur að því að ljúka námi. „Þetta voru okkar helstu markmið og þau gengu upp,“ segir Mads í viðtali við AFP fréttastofuna.
Í Árósum hófst verkefni sem miðaði að því að draga úr áhrifum öfgahópa á ungt fólk árið 2007. Allir sem vilja geta tekið þátt og er fjölbreyttur hópur sem bæði veitir fólki aðstoð og eins er hópurinn fjölbreyttur sem fær stuðning.
Enn sem komið er hafa dönsk yfirvöld ekki ákært þá sem hafa farið og barist með öfgahópum líkt og Belgar hafa til að mynda gert. Það er hins vegar ekki sátt um málið meðal danskra stjórnmálamanna og ekki heldur almennings þar sem margir telja rétt að refsa fyrir slíkt.