Íran hefur gert loftárásir á búðir Ríki íslams í austurhluta Íraks undanfarna daga, samkvæmt upplýsingum BBC innan úr varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna. Ekki er um samstarf Bandaríkjanna og Írans að ræða en bandaríski herinn gert hundruð loftárása á búðir Ríki íslams frá því í ágúst.
BBC hefur einnig fengið staðfest frá íranska hernum að hann sé ekki í hernaðarsamstarfi með Bandaríkjamönnum.
Bandarísk yfirvöld hafa sagt að það væri óviðeigandi ef Íran tæki þátt í samstarfi gegn Ríki íslams þrátt fyrir að þjóðirnar eigi sameiginlegan óvin í Ríki íslam. Allt frá íslömsku uppreisninni í Íran árið1979 hefur samband ríkjanna verið afar stirt.
Talsmaður varnarmálaráðuneytisins, John Kirby, staðfestir að orrustuflugvélar íranska hersins af F-4 gerð hafi gert loftárásir á Írak undanfarna daga en fyrir nokkrum dögum birti Al-Jazeera myndir sem sýndi F-4 vélar, svipaðar þeim sem íranski herinn á, gera árás á skotmörk í Diyala hérað í austurhluta Íraks.
Landher Írans hefur einnig veitt her Íraks og skæruliða sjíta í baráttunni við Ríki íslam. Þetta er hins vegar í fyrsta skipti sem bandaríski herinn staðfestir að Íranir hafi gert loftárásir á Írak.