Þjóðverjar syrgja Albayrak

Fjölmenni kom saman til fylgja til grafar Tugce Albayrak sem lést eftir að hafa komið tveimur stúlkum til aðstoðar sem urðu fyrir áreiti. Minningarathafnir hafa verið haldnar víða í Þýskalandi en Albayrak lést sl. föstudag, en þá varð hún 23 ára gömul.

Athöfnin hófst í mosku í bænum Wächtersbach í ríkinu Hesse, sem er skammt frá Frankfurt. Þar komu hundruð saman, m.a. sendiherra Tyrklands í Þýskalandi.  Albayrak var síðan borin til grafar á fæðingarstað sínum í Bad Soden-Salmünster, sem er skammt frá. Fjallað er um málið á vef BBC.

Lögreglan er með 18 ára gamlan karlmann í haldi sem er grunaður um að hafa orðið henni að bana, en árásin átti sér stað 15. nóvember sl. 

Málið hefur vakið mikinn óhug og er þýska þjóðin harmi slegin vegna atburðarins. 

Albayrak hafði afskipti af árásarmanninum þegar hún heyrði tvær stúlkur gráta inni á salerni skyndibitastaðar í bænum Offenbach. Fram hefur komið í þýskum fjölmiðlum, að menn hafi verið að áreita stúlkurnar. 

Einn mannanna réðist síðan á Albayrak á bílastæði skammt frá skyndibitastaðnum. Hann sló hana hnefahöggi með þeim afleiðingum að hún féll og missti meðvitund. Eftir að læknar lýstu því yfir að hún myndi aldrei komast til meðvitundar aftr og væri heiladauð, var ákveðið að slökkva á öndunarvélinni sem hélt í henni lífinu. Það gerðist á 23 ára afmælisdegi hennar.

Þýska dagblaðið Bild birti í fyrradag upptöku úr eftirlitsmyndvél sem sýnir atvikið.  Þar sést karlmaður reyna að hafa hemil á árásarmanninum áður en hann ræðst á Albayrak.

Saksóknarar segja að bráðabirgðaniðurstaða krufningar hafi leitt í ljós að höfuðhögg hefði dregið hana til dauða. Hins vegar liggur ekki fyrir hvort það hefði verið af völdum hnefahöggsins eða höggsins sem hún hlaut er höfuðið hennar skall í jörðina.

Margir hafa vottað henni virðingu sína, m.a. forseti Þýskalands sem sagði að hún væri mikil fyrirmynd og hefði sýnt mikið hugrekki. 

Yfir 100.000 manns skrifað undir áskorun þar sem stjórnvöld eru hvött til að sæma Albayrak orðu fyrir. Þýskalandsforseti íhugar nú málið. Hann hefur jafnframt skrifað fjölskyldu hennar bréf þar sem fram kemur að hann sé sleginn vegna atburðarins. Hann segir að hún eigi bæði virðingu og þakklæti skilið.

Þýska þjóðin harmi slegin

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert