Texasháskóli í Austin hefur týnt hundrað mannsheilum sem geymdir voru í formalíni í krukkum. Líklega hefur m.a. týnst heili manns sem drap og særði fjölda manns í árás í skóla fyrir um fimmtíu árum.
Rúmlega 200 heilar voru fluttir frá háskólasjúkrahúsinu og í háskólann fyrir um þremur áratugum. Hins vegar var ekki pláss fyrir þá alla á rannsóknarstofu sálfræðideildarinnar og því voru hundrað þeirra geymdir ofan í kjallara.
„Það er mjög líklegt að þetta hafi spurst út og að nemendur og aðrir hafi farið að taka þá ófrjálsri hendi til að geyma í stofunni heima hjá sér eða nota í til að hrekkja aðra,“ segir sálfræðiprófessorinn Lawrence Cormack við dagblaðið Austin American-Statesman.
Talið er að heili sjóliðans Charles Whitman sé meðal hinna horfnu heila en hann var skotinn til bana af lögreglu eftir að drepa sextán manns árið 1966 er hann hóf skotárás úr klukkuturni.
Háskólinn hyggst rannsaka hvar heilarnir eru niðurkomnir.