Drakk átta bjóra og hálfan vodka pela

AFP

Dómarar í Bretlandi hafa nú ákveðið að sjö ára gamalt barn mun ekki fá bætur frá móður sinni, sem drakk mikið magn af áfengi á meðan hún gekk með það. Sky News segir frá þessu.

Dómararnir komust að þeirri niðurstöðu að móðirin hafi ekki brotið lög með því að drekka meira en mælt er með af áfengi á meðgöngu. Niðurstaðan er mikið áfall fyrir ákæruvaldið sem hefur barist fyrir máli barnsins.

Áfengismagnið sem móðirin drakk hefur haft áhrif á líf barnsins sem á erfitt með að læra, er eftir á í þroska og þjáist af minnisglöpum og hegðunarvandamálum. 

Dómararnir þrír komust að einróma niðurstöðu í málinu. Ef konan hefði verið sakfelld hefði það getað rutt brautina fyrir ákæruvaldið til þess að ákæra fleiri konur fyrir hluti sem þær gera á meðgöngu. Baráttumenn fyrir réttindum mæðra fagna þó úrskurðinum. „Þetta er mikilvægur niðurskurður fyrir konur allsstaðar,“ sagði Rebecca Schillar, aðstoðarframkvæmdarstjóri samtakanna Birthrights.

Við réttarhöldin kom í ljós að konan hafi drukkið gífurlegt magn af áfengi á hverjum degi, þar á meðal hálfa flösku af vodka og átta dósir af bjór. Það eru um 40 til 57 áfengiseiningar en mælt er með því að óléttar konur drekki ekki meira en 7,5 áfengiseiningar á dag. Í ljós kom jafnframt að þetta hafi verið önnur meðganga konunnar. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert