Arftaki kommúnistaflokksins tekur við völdum

Bodo Ramelow sver embættiseið í sambandsþinginu í Thüringen í morgun.
Bodo Ramelow sver embættiseið í sambandsþinginu í Thüringen í morgun. AFP

Vinstriflokkurinn, arftaki austur-þýska kommúnistaflokksins, tók í dag formlega við stjórnartaumunum í einu af sambandsríkjum Þýskalands í fyrsta skipti frá falli Berlínarmúrsins. Flokkurinn hefur verið umdeildur en hann aðhyllist meðal annars andkapítalisma og friðarstefnu.

Bodo Ramelow, verkalýðsforkólfur frá gamla Vestur-Þýskalandi, var í morgun svarinn í embætti sem forsætisráðherra sambandsríkisins Thüringen. Atkvæðagreiðsla um það í þinginu var talin tvísýn en saman hafa Vinstriflokkurinn og samstarfsflokkar hans aðeins eins manns meirihluta.

Vinstriflokknum, sem stofnaður var árið 2007, farnast yfirleitt nokkuð vel í fyrrum Austur-Þýskalandi og hefur áður tekið þátt í héraðsstjórnum hér og þar en þetta er í fyrsta skipti sem flokkurinn er leiðandi í stjórnarsamstarfi.

Kommúnistatíminn í Austur-Þýskalandi er enn viðkvæmt mál og hefur ýmsir tekið stuðning kjósenda við Vinstriflokkinn nærri sér. Þannig sagði Joachim Gauck, forseti Þýskalands, sem áður var prestur í Austur-Þýskalandi, að það væri mjög erfitt að sættast við þá staðreynd.

Um 2.000 manns komu saman fyrir utan sambandsþingið í Thüringen til að mótmæla. Kölluðu sumir „Stasi út“ og vísuðu þar til gömlu austur-þýsku öryggislögreglunnar.

Kristilegir demókratar, flokkur kanslarans Angelu Merkel, var mest fylgi flokkanna í kosningunum í Thüringen en hann hefur verið við völd þar frá því að Þýskaland var sameinað árið 1990. Samstarfsflokkur sósíaldemókrata kaus hins vegar að mynda rauðgrænt bandalag með Græningjum og Vinstriflokknum eftir að niðurstöður kosninganna lágu ljósar fyrir.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert