Svíþjóðardemókratar „nýfasískur flokkur“

Magdalena Andersson, fráfarandi fjármálaráðherra Svíþjóðar, lengst til hægri. Stefan Löfven …
Magdalena Andersson, fráfarandi fjármálaráðherra Svíþjóðar, lengst til hægri. Stefan Löfven forsætisráðherra er við hlið hennar. AFP

Fjármálaráðherrann í fráfarandi ríkisstjórn Svíþjóðar, Magdalena Andersson, gagnrýndi í dag harðlega stjórnmálaflokkinn Svíþjóðardemókrata fyrir að koma í veg fyrir það á dögunum að fjárlagafrumvarp stjórnarinnar næði fram að ganga. Í kjölfarið boðaði ríkisstjórnin til þingkosninga sem fram munu fara 22. mars á næsta ári.

Ráðherrann sakaði Svíþjóðardemókrata um nýfasisma og að vilja stjórna því á hvaða forsendum stjórnmálin í Svíþjóð færu fram. „Það er ekki flokkur sem stendur fyrir þau grundvallargildi að allir einstaklingar séu jafnir sem hækkar nú róminn og vill stjórna forsendum sænskra stjórnmála,“ sagði Andersson í samtali við sænska fjölmiðla.

Ríkisstjórn jafnaðarmanna og græningja tókst ekki að afla fjárlagafrumvarpinu nægjanlegst stuðnings en sjálf er hún einungis með minnihluta þingmanna á bak við sig. Hægriflokkarnir lögðu hins vegar fram eigið frumvarp og Svíþjóðardemókratar lýstu yfir stuðningi við það. Stefan Löfven forsætisráðherra ákvað í kjölfarið að boða til nýrra kosninga.

Fram kemur í frétt AFP að ekki hafi verið boðað til nýrra kosninga á miðju kjörtímabili í Svíþjóð í hálfa öld. Ennfremur að Svíþjóðardemókratar hafi lýst því yfir að markmið þeirra sé að kosningarnar verði eins konar þjóðaratkvæði um innflytjendamál en eitt helsta stefnumál þeirra er harðari innflytjendastefna. Einkum þegar kemur að hælisleitendum.

„Það sem við höfum hér er nýfasískur flokkur sem telur að hann verði að hafa afgerandi áhrif og ráða dagskránni í sænskum stjórnmálum,“ sagði Andersson ennfremur. Svíþjóðardemókratar náðu fyrst kosningu á sænska þingið árið 2010. Flokkurinn varð þriðji stærsti flokkur Svíþjóðar í þingkosningunum í september með 12,9% fylgi og 49 af 349 þingmönnum á sænska þinginu. Aðrir flokkar á þinginu hafa hins vegar hafnað öllu samstarfi við þá.

Mattias Karlsson, starfandi leiðtogi Svíþjóðardemókrata.
Mattias Karlsson, starfandi leiðtogi Svíþjóðardemókrata. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert