Býður við rasisma í samfélaginu

Frá mótmælum í New York gegn þeirri ákvörðun að ákæra …
Frá mótmælum í New York gegn þeirri ákvörðun að ákæra ekki lögreglumanninn sem tók Erik Garner hengingartaki með þeim afleiðingum að hann lést.. AFP

Mót­mæla­alda hef­ur gengið yfir Banda­rík­in und­an­farn­ar vik­ur í kjöl­far þess að hvít­ir lög­reglu­menn í Fergu­son, New York og víðar hafa ekki þurft að sæta neinni refs­ingu fyr­ir að drepa óvopnaða blökku­menn. At­b­urðirn­ir hafa orðið til þess að draga kynþátta­ólgu í land­inu aft­ur upp á yf­ir­borðið. 

Harðvítug mót­mæli brut­ust út í St. Lou­is í Mis­souri eft­ir að Dar­ren Wil­son, hvít­ur lög­reglumaður, skaut Michael Brown, óvopnaðan svart­an ung­lings­pilt, til bana í út­hverf­inu Fergu­son sem hann grunaði um að hafa stolið síga­rett­um úr stór­markaði. Mót­mæl­in dreifðust víða um Banda­rík­in eft­ir að kviðdóm­ur komst að þeirri niður­stöðu að Wil­son yrði ekki ákærður fyr­ir drápið.

Nú í vik­unni hef­ur verið mót­mælt í New York eft­ir að í ljós kom að hvít­ur lög­reglumaður sem tók Erik Garner, ann­an óvopnaðan blökku­mann, heng­ing­ar­taki með þeim af­leiðing­um að hann lést yrði held­ur ekki ákærður. Lög­reglumaður­inn hafði Garner grunaðan um að selja ólög­leg­ar síga­rett­ur og seg­ir hann hafa streist á móti hand­töku.

Þessu til viðbót­ar skaut lög­reglumaður í Cleve­land Tam­ir Rice, tólf ára þeldökk­an dreng, til bana fyr­ir tveim­ur vik­um en hann hafði veifað loft­byssu í al­menn­ings­garði. Nú síðast bár­ust frétt­ir af því að lög­reglumaður í Phoen­ix hefði skotið svart­an mann til bana sem hann grunaði um að stunda viðskipti með fíkni­efni. Hann reynd­ist hafa verið óvopnaður og var drep­inn fyr­ir fram­an börn sín og konu.

Með hverju morðinu eykst gremja mót­mæl­enda í garð lög­regl­unn­ar og rétt­ar­kerf­is­ins sem kýs að sækja lög­reglu­menn ekki til saka og hafa mót­mæl­end­ur víðast hvar tekið upp söng­inn: „Ekk­ert rétt­læti, eng­inn friður, enga rasíska lög­reglu­menn“.

Hvít­ir lög­reglu­menn drepa 96 blökku­menn á ári

Lög­reglu­menn í Banda­ríkj­un­um verða mun fleira fólki að bana á hverju ári en í öðrum vest­ræn­um ríkj­um. Í Kan­ada eru til­fell­in á ann­an tug á ári en í Bretlandi var eng­inn skot­inn til bana af lög­reglu í fyrra. Í Banda­ríkj­un­um drap lög­regl­an hins veg­ar 461 mann með „lög­mæt­um hætti“ sam­kvæmt skýrslu al­rík­is­lög­regl­unn­ar FBI.

Þessi fjöldi hef­ur auk­ist und­an­far­in ár en það gæti þó verið vegna þess að fleiri lög­reglu­embætti skili inn töl­um en áður. USA Today greindi töl­urn­ar og komst að þeirri niður­stöðu að á sjö ára tíma­bili hefðu hvít­ir lög­reglu­menn banað svörtu fólki um 96 sinn­um á ári að meðaltali. 

Mót­mæl­end­ur líta á töl­ur sem þess­ar og bága stöðu blökku­manna í Banda­ríkj­un­um al­mennt og segja að kynþátta­for­dóm­ar ráði för hjá lög­reglu­mönn­um.

„Mér býður við ras­ism­an­um sem ég sé í sam­fé­lag­inu. Ég er kom­in með nóg,“ hef­ur The New York Times eft­ir ein­um mót­mæl­end­anna í New York.

Árekstr­ar við borg­ara stig­magn­ast

Á það hef­ur einnig verið bent að of auðvelt sé fyr­ir lög­reglu­menn í Banda­ríkj­un­um að kom­ast upp með að bana fólki í starfi án þess að þurfa að svara til saka. Sanna þarf að lög­reglumaður hafi bein­lín­is ætlað sér að svipta fólk borg­ara­leg­um rétt­ind­um sín­um í slæmri trú. Hafi hann talið að líf sitt væri í hættu eða hann væri að fara eft­ir þjálf­un sinni eru mál yf­ir­leitt lát­in niður falla.

Rann­sókn sem rík­is­sak­sókn­ari Banda­ríkj­anna hef­ur gert á vinnu­brögðum lög­regl­unn­ar í Cleve­land, þar sem hinn tólf ára gamli Tam­ir Rice var drep­inn, og birt var á fimmtu­dag bend­ir til þess að lög­regluþjón­ar beiti reglu­lega harka­legu of­beldi vegna ófull­nægj­andi þjálf­un­ar og eft­ir­lits. Þannig verði þeir þess oft vald­andi að árekstr­ar við borg­ara stig­magn­ist.

Rætt hef­ur verið um að lög­regluþjón­ar ættu að ganga um með mynda­vél utan á sér þegar þeir eru að störf­um og hef­ur Barack Obama for­seti meðal ann­ars kallað eft­ir því. Þær myndu ekki endi­lega upp­lýsa mál fylli­lega í hvert skipti en vís­bend­ing­ar er um að árekstr­um á milli lög­reglu og borg­ara myndi fækka með þeim.

Fólk um­ber frek­ar glæpi en stofn­un sem hat­ar það

Blaðamaður­inn Jamelle Bouie skrif­ar í grein á vef­tíma­rit­inu Slate að vanda­málið sé ekki endi­lega of­beldi lög­reglu held­ur skyndi­leg vald­beit­ing henn­ar. Fórn­ar­lömb­in hafi aldrei haft mögu­leika á að bregðast við. Lög­regl­an mæti á staðinn með vopn­in á lofti til­bú­in til að drepa. Nefn­ir hann fjölda dæma um dráp lög­reglu­manna á borg­ur­um máli sínu til stuðnings til viðbót­ar við þau sem hafa kom­ist í há­mæli und­an­farið.

Þó að litið sé fram hjá því að lög­regla tor­tryggi frek­ar svarta en hvíta og eft­ir­lit henn­ar sé of strangt, sér­stak­lega í hverf­um blökku­manna og fólks frá Rómönsku Am­er­íku, hafi hún of mikið vald til þess að beita vopn­um án þess að henni sé ógnað al­var­lega. Lög­reglu­menn ætl­ist einnig til þess að borg­ar­arn­ir hlýði skip­un­um skil­yrðis­laust, óháð aðstæðum.

Í kjöl­farið á ákvörðunum kviðdóma í Fergu­son og New York hafi yf­ir­völd hvatt mót­mæl­end­ur til að virða málsmeðferð rétt­ar­kerf­is­ins. Bouie bend­ir hins veg­ar á að virðing­in gangi í báðar átt­ir: Um­beri lög­reglu­yf­ir­völd slæma lög­reglu­menn sem beiti of­beldi í of rík­um mæli glati lög­regl­an virðingu borg­ar­anna.

„Í besta falli skap­ar það sam­fé­lög þar sem borg­ar­arn­ir neita að vinna með lög­regl­unni, þar sem þeir eru frek­ar til­bún­ir að um­bera glæpi en að vinna með stofn­un sem legg­ur fæð á þá og kem­ur fram við þá eins og þeir séu ekki menn. Í versta falli spring­ur það upp í ljós­um log­um þegar fólk kem­ur að þol­mörk­um sín­um og ger­ir upp­reisn gegn þeirri óop­in­beru reglu að líf þeirra skipti ekki máli,“ seg­ir Bouie.

Fyrri frétt­ir mbl.is:

Skot­inn með pill­ur en ekki byssu

Þúsund­ir mót­mæltu í New York

Lög­regl­an geti drepið af hvaða ástæðu sem er

Lést eft­ir heng­ing­ar­tak lög­reglu

Skutu dreng­inn af þriggja metra færi

Þjóðvarðliðar voru kallaðir út í kringum mótmæli í Ferguson í …
Þjóðvarðliðar voru kallaðir út í kring­um mót­mæli í Fergu­son í síðustu viku. AFP
Mótmælendur í Cleveland krefjast þess að morðunum sloti. Þar skaut …
Mót­mæl­end­ur í Cleve­land krefjast þess að morðunum sloti. Þar skaut lög­reglumaður tólf ára gaml­an dreng í al­menn­ings­garði. Sést hafði til hans veif­andi byssu sem óvíst var hvort að væri ekta. Hún reynd­ist síðan vera loft­byssa. AFP
mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Erlent »

Fleira áhugavert