Tímaritið TIME hefur gefið út hvaða einstaklingar koma til greina sem persóna ársins 2014. Óhætt er að segja að um fjölbreytt úrval einstaklinga sé að ræða en á listanum eru m.a. forseti Rússlands, Vladimir Pútín, og söngkonan Taylor Swift.
Aðrir tilnefndir eru Tim Cook, framkvæmdastjóri Apple, Jack Ma, stofnandi Alibaba, framkvæmdastjóri NFL, Roger Goodell, og Massoud Barzani, forseti sjálfstjórnarsvæðis Kúrda í Írak.
Þá eru á listanum tveir hópar fólks, þeir sem hafa komið að umönnun ebólu-sjúklinga og mótmælendur í Ferguson í Missouri í Bandaríkjunum.
Nancy Gibbs, ritstjóri Time, sagði í dag að tilnefndu væru þeir sem tímaritið teldi hafa haft mest áhrif á fréttaumfjöllun á liðnu ári. Mótmælendurnir í Ferguson hefðu t.d. komið af stað umræðu um kynþáttasamskipti og útdeilingu réttlætis í landinu.
Þá hefði Taylor Swift verið tilnefnd vegna þeirrar viðskiptaákvörðunar hennar að fjarlægja alla tónlist sína af streymiþjónustunni Spotify.
Sigurvegarinn er valinn af ritstjórum tímaritsins en lesendur geta komið sinni skoðun á framfæri með því að greiða atkvæði á vefsvæði Time. Úrslitin verða tilkynnt á miðvikudag.
Meðal þeirra sem áður hafa verið útnefndir persóna ársins af Time eru Frans páfi, Barack Obama Bandaríkjaforseti og Mark Zuckerberg, stofnandi Facebook.