Hjónin Vilhjálmur Bretaprins og Katrín hertogaynja eru nú í opinberri heimsókn í Bandaríkjunum. Þar mun Vilhjálmur meðal annars eiga fund með Barack Obama, forseta Bandaríkjanna. Í myndasyrpu sem fylgir fréttinni má sjá myndir úr ferð hjónanna.
Hjónin hafa meðal annars farið á körfuboltaleik og vottað fórnarlömbum hryðjuverkanna þann 11. september árið 2001 virðingu sína.
Líkt og við var að búast fær Katrín, eða réttara sagt blómstrandi kviður hennar, nokkra athygli í ferðinni en hún á von á sér í apríl næsta ári. Svo virðist sem hún hafi kosið að klæðast fötum í dökkum litum og er stórt, svart veski með í för. Þó er ljóst að magi hennar fer óðum stækkandi.
Þetta er í fyrsta skipti sem hún ferðast út fyrir Bretland eftir að tilkynnt var um óléttu hennar en hún hefur þjáðst af mikilli morgunógleði. Fréttaveita AFP hefur áður greint frá því að hún eigi von á öðrum dreng.