Tveir fangar voru teknir af lífi í Bandaríkjunum í nótt og eru þetta síðustu dauðadæmdu fangarnir sem verða teknir af lífi þar í landi á þessu ári. Alls eru aftökurnar 35 talsins í bandarískum fangelsum í ár samanborið við 39 í fyrra.
Robert Wayne Holsey, 49 ára, var úrskurðaður látinn klukkan 22:51 að bandarískum tíma, 3:51 að íslenskum tíma, en hann var tekinn af lífi með banvænni sprautu í Georgíu.
Holsey, sem er blökkumaður, var dæmdur til dauða fyrir að hafa skotið hvítan lögreglumann, William Robinson, til bana eftir að hafa rænt verslun árið 1995 í Baldwin sýslu.
Samkvæmt frétt New York Times bað Holsey bænirnar sínar og tók á móti ættingjum á síðasta degi lífs síns. Síðasta máltíð hans var grillaður kjúklingur.
Verjandinn fullur allan tímann og morðinginn greindarskertur
Í tilkynningu frá fjölskyldu lögreglumannsins kemur fram að þau séu fegin að málinu sé nú loks lokið nítján árum síðar.
Mál Holsey vakti mikla athygli, meðal annars vegna þess að verjandi hans við réttarhöldin árið 1997 viðurkenndi síðar að hann hafi drukkið ótæpilegt magn af vodka á hverjum degi á þessum tíma. Eins hafi hann verið upptekinn af eigin málum á þessum tíma en hann hafði verið ákærður fyrir þjófnað og var dæmdur síðar í fangelsi fyrir það.
Áfrýjunardómstóll komst að þeirri niðurstöðu að vörnin hafi ekki staðið sig sem skyldi í dómsmálinu gegn Holsey. Meðal annars hafi lögmaðurinn vanrækt að veita ýmsar mikilvægar bakgrunnsupplýsingar um Holsey, svo sem um misnotkun sem hann varð fyrir sem barn af hálfu móður hans en hún beitti hann bæði ofbeldi og niðurlægði hann á allan þann hátt sem hún mögulega gat. Eins mældist greindarvísitala Holsey 70 sem er á mörkum þess að Holsey hefði verið úrskurðaður ósakhæfur og því hefði aftakan verið ólögleg.
Eins var dauðadómurinn gagnrýndur harðlega á grundvelli þess að um blökkumann var að ræða sem drap hvítan lögregluþjón.
Andlegur þroski á við barn
Paul Goodwin, 48 ára, var síðan tekinn af lífi klukkan 1:25 að bandarískum tíma, klukkan 7:25 að íslenskum tíma í morgun í Missouri.
Goodwin var dæmdur til dauða fyrir að hafa myrt 63 ára gamla ekkju með hamri eftir að hafa reynt að nauðga henni. Þetta er tíunda aftakan í Missouri í ár en Holsey var annar fanginn í Georgíu sem er tekinn af lífi í ár.
Samkvæmt Huffington Post ýtti Goodwin Joan Crotts niður stiga á heimili hennar og barði hana í höfuðið með hamri. Hann var fyrrverandi nágranni Crotts og taldi að hún hafi staðið á bak við að hann var flæmdur í burtu.
Bent var á það að greindarvísitala Goodwin mældist 73 og einhver próf bentu til að hún væri enn lægri.
Systir hans, Mary Mifflin, reyndi að fá lífi hans þyrmt, og vísaði þar með til þess að andlegur þroski hans væri svipaður og hjá barni.