Krónprins Taílands og eiginkona hans eru skilin og hefur hún sagt af sér konunglegum titli sínum sem krónprinsessa. Tilkynning um þetta barst frá konungshöllinni snemma í morgun en þau höfðu verið gift í þrettán ár.
Ættingjar prinsessunnar fyrrverandi voru nýlega handteknir vegna máls sem vakið hefur mikla hneykslan og reiði meðal landsmanna.
Talið er að krónprinsinn, sem er 62 ára, hafi skilið við eiginkonu sína af ótta við framtíð konungsríkisins nú þegar valdatíð föður hans, konungsins Bhumibols Adulyadejs, er senn á enda. Hann er 87 ára og hefur setið lengst allra kónga á valdastóli.
Hjónin eiga einn son. Hann er níu ára gamall og var talið að hann tæki við krúnunni af föður sínum.