Forsætisráðherra Japan, Shinzo Abe, vann öruggan sigur í þingkosningunum sem fram fóru í landinu. Abe hafði sagt að kosningarnar væru þjóðaratkvæðagreiðsla um stefnu sína í efnahagsmálum, eftir að undan fjaraði er leið á kjörtímabilið.
Lítil kosningaþátttaka kemur í veg fyrir að forsætisráðherrann geti haldið fram algjörum sigri áætlunar sinnar, sem hefur verið kölluð „Abenomics“. Flokkur hans, frjálslyndir demókratar, og samstarfsflokkurinn Komeito, sópuðu þó til sín tveimur þriðjungum þingsæta samkvæmt útgönguspám.
TV Asahi sagði flokkana hafa hlotið 333 þingsæti af 475, en sjónvarpsstöðin TBS sagði þá hafa tryggt sér 328 sæti.
„Þessi sigur mun treysta pólitískan höfuðstól Abe og gera honum kleift að takast á við mál með auðveldari hætti,“ segir Yoshinobu Yamamoto, stjórnmálafræðiprófessor við háskólann í Niigata.
Abe, sem er 60 ára gamall, var aðeins hálfnaður með kjörtímabil sitt þegar hann boðaði kosningar í síðsta mánuði. Fyrstu áfangar efnahagsáætlunar hans hafa skilað nokkrum árangri. Lægra gengi jensins hefur m.a. skilað sér í auknum útflutningi og hækkun á hlutabréfamarkaði.
Verulega dró þó úr einkaneyslu í kjölfar söluskattshækkunar í apríl sl., sem skilaði sér í samdrætti annan ársfjórðunginn í röð.