Mikill meirihluti Svía er sem fyrr andvígur upptöku evrunnar í stað sænsku krónunnar en á sama tíma er meirihluti þeirra hlynntur áframhaldandi veru í Evrópusambandinu (ESB). Þetta kemur fram í niðurstöðum nýrrar skoðanakönnunar. Fréttavefurinn Europaportalen.se segir frá.
Samkvæmt könnuninni, sem gerð var á vegum sænsku hagstofunnar, eru 76,9% Svía andvíg því að evran verði gerð að gjaldmiðli Svíþjóðar. Einungis 13,2% eru því hlynnt en aðrir óákveðnir. Andstaðan við upptöku evru hefur verið á svipuðu róli frá árinu 2011.
Hins vegar eru 50,5% Svía hlynnt því að vera áfram aðilar að ESB en 20,9% því andvíg. Haft er eftir Douglas Brommesson, stjórnmálafræðingi við Háskólann í Lundi, að veran í ESB hafi smám saman orðið hluti af sænskum stjórnvöldum og stjórnmálaflokkar sem áður hafi verið andvígir henni aðlagast þeim veruleika.
Hvað varðar evruna segir Brommesson efnahagserfiðleikana á evrusvæðinu vera stóra skýringu á mikilli andstöðu við hana á meðal Svía. „Kannski má segja að stuðningur við veruna í ESB og andstaða við upptöku evrunnar hafi orðið að málamiðlun í þjóðfélaginu.“