„Fólk eins og ég ætti bara að deyja“

AFP

Kerfisbundnar hreinsanir eiga sér stað í Norður-Kóreu þar sem líkamlega og andlega fatlaðir einstaklingar eru látnir hverfa að sögn Ji Seong-ho sem flúði þaðan á sínum tíma og vinnur nú að rannsókn vegna bókar sem hann hyggst gefa út um stöðu fatlaðra í landinu. Fatlaðir séu álitnir blettur á ímynd Norður-Kóreu og niðurlæging fyrir ráðamenn landsins að sögn Ji en sjálfur missti hann vinstri fótlegg fyrir ofan hné og vinstri hönd fyrir ofan úlnlið áður en hann flúði land. 

Haft er eftir Ji á fréttavef breska dagblaðsins Daily Telegraph að fötluð börn séu tekin af foreldrum þeirra af starfsfólki sjúkrahúsa og þeir sjái þau aldrei aftur. Opinbera línan í Norður-Kóreu sé að þar séu engir fatlaðir, allir séu jafnir og allir hafi það gott. Hann hafi keyrt frá öðrum flóttamönnum frá landinu að fötluðum hafi meðal annars safnað saman í afskekkt þorp og þeim bannað að yfirgefa þau. Fólkið hafi þurft að hugsa alfarið um sig sjálft án nokkurrar utanaðkomandi aðstoðar. Karlmenn hafi verið geldir til þess að þeir gætu ekki fjölgað sér og börn vanrækt þar til þau vesluðust upp.

Fötluð börn notuð við efnavopnatilraunir?

Fram kemur í fréttinni að nefnd á vegum Sameinuðu þjóðanna hafi greint frá því í febrúar að fullyrt hafi verið við hana að læknisfræðilegar rannsóknir væru gerðar á fötluðum einstaklingum á lokuðum sjúkrahúsum. Ekki hafi þó tekist að staðfesta þær fullyrðingar. Samkvæmt rannsókn sem gerð hafi verið á síðasta ári telji 40% þeirra sem flúið hafi Norður-Kóreu að fötluð börn séu myrt eða borin út. Þá hafi 43% sagst vita um ákveðna eyju þar sem fatlaðir væru neyddir til að búa.

Því hafi einnig verið haldið fram að fatlaðir einstaklingar væru notaðir í tilraunir með efnavopn. Þannig hafi fyrrverandi yfirmaður í sérsveitum Norður-Kóreu, Im Cheon-yong sem flúði land seint á síðustu öld, sagt að hann hafi orðið vitni að því þegar efnavopn voru prófuð á bæði fötluðum börnum og fullorðnum einstaklingum. „Stjórnvöld vilja gera þetta "löglega“ svo þau bjóðast til að kaupa fötluð börn af foreldrum þeirra og segjast ætlað að sjá um þau. Ef það tekst ekki er foreldrunum hótað.“

Engin deyfilyf og sígarettur sem verkjalyf

Ji Seong-ho segir frá því í frétt Daily Telegraph að hann hafi eitt sinn misst meðvitund af hungri þar sem hann var 14 ára að aldri að að leita að kolum við járnbrautarteina. Í kjölfarið hafi járnbrautarlest ekið yfir vinstri hönd hans og fótlegg. Starfsmenn nærliggjandi brautarstöðvar hafi sett hann í hjólbörur og ekið honum þannig á næsta sjúkrahús. Gera hafi þurft á honum aðgerð en engin deyfilyf hafi verið fyrir að fara á sjúkrahúsinu.

„Ég man eftir því þegar læknirinn bar mig inn á skurðstofuna og þeir þurftu að halda mér niðri á meðan aðgerðin á mér var framkvæmd. Ég gat heyrt í söginni þegar hún var að fara í gegnum beinin í mér,“ er haft eftir honum. Eftir aðgerðina fékk Ji sígarettur í stað verkjalyfja. Sýking kom síðan í fótlegginn og þurfti fyrir vikið að taka meira af honum. Eins og áður voru engin deyfilyf til staðar. Fimmtán dögum seinna var hann sendur heim þar sem læknarnir sögðust ekki geta gert neitt meira fyrir hann.

Sagður hafa skaðað virðingu Norður-Kóreu

Ji segir einnig frá því að hann hafi fengið leyfi árið 2000 til þess að ferðast yfir landamærin til Kína til þess að betla mat. Þegar hann sneri aftur var hann handtekinn og yfirheyrður í tvær vikur. „Ég spurði þá hvers vegna. Þeir sögðu mér að þar sem ég væri fatlaður hefði ég skaðað virðingu Norður-Kóreu með því að fara yfir til Kína og betla og lítilsvirt Kim Jong-Il [þáverandi leiðtoga landsins]. Þeir sögðu að íbúar Norður-Kóreu væru hamingjusamir og spurðu hvernig ég hefði vogað mér að fara til Kína og betla. Fólk eins og ég ætti bara að deyja.“

Hann ákvað loks að flýja land árið 2006 þegar hann var 24 ára gamall og tókst að komast til Suður-Kóreu. Skömmu síðar tókst honum að sama skapi að koma móður sinni, yngri bróður sínum og systur til Suður-Kóreu. Faðir hans reyndi einnig að flýja sama ár en var handsamaður og sendur í fangelsi þar sem hann lét lífið eftir að hafa verið pyntaður.

Geta ekki sinnt fötluðum ættingjum sínum

Ji segir að stjórnvöld í Norður-Kóreu haldi því fram að réttindi fatlaðra í landinu séu virt og að þau hafi sent íþróttafólk til þess að keppa á Ólympíuleikum fatlaðra í Asíu fyrr á þessu ári því til sönnunar. Það væru hins vegar blekkingar. „Raunveruleikinn er hræðilegur. Í hungursneyðinni á 9. áratug síðustu aldar fengu fatlaðir engan mat á þeim forsendum að þeir gætu ekki unnið og skiluðu þannig ekki sínu til samfélagsins. Allt að 80% fatlaðra einfaldlega létu lífið úr hungri.“

„Stjórnvöld líta svo á að við séum gagnslaus og það eru skilaboðin sem þeir senda út í samfélagið. Barn fæddist skammt frá heimili mínu með vanþroskaða fótleggi. Það dó þegar það var eins árs. Almenningur í Norður-Kóreu á í svo miklu basli við að lifa af að það getur ekki sinnt þeim sem eru fatlaðir.“

Kim Jong-Un, leiðtogi Norður-Kóreu.
Kim Jong-Un, leiðtogi Norður-Kóreu. AFP
Norður-kóreskur hermaður stendur vörð yfir þarlendum hafnarverkamönnum.
Norður-kóreskur hermaður stendur vörð yfir þarlendum hafnarverkamönnum. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert