Tala látinna í árás talibana á skóla í borginni Peshawar í Pakistan er nú sögð vera 141. Þar með er árásin mannskæðasta hryðjuverkaárás í sögu landsins. Talsmaður hersins segir að 132 af hinum látnu séu börn en níu séu starfsmenn skólans. Sex árásarmenn voru felldir af hermönnum.
AFP-fréttaveitan segir að samkvæmt þessum tölum sé árásin í morgun sú mannskæðasta í sögu Pakistan, stærri en sjálfsmorðstilræði sem beindist gegn fyrrverandi forsætisráðherranum Benazir Bhutto í Karachi árið 2007.
Talibanar segja árásina svar þeirra við aðgerðum hersins gegn þeim í héraðinu. Vitni hafa lýst því hvernig vopnaðir menn ruddust inn í skólann, eltu skólabörn frá einni stofu til annarrar og skutu þau.
„Ég sá stór svört stígvél koma í áttina til mín, þessi náungi var líklega að eltast við nemendur sem voru að fela sig á bak við bekki,“ hefur AFP eftir Shahurkh Khan, sextán ára pilti sem lifði árásina af. Hann ákvað að þykjast vera dauður eftir að byssukúlur hæfðu hann í báða fæturna. Hann segist jafnvel hafa troðið bindi upp í sig til að kæfa öskur sín.
„Maðurinn í stóru stígvélunum hélt áfram að leita að nemendum og að dæla byssukúlum í líkama þeirra. Ég lá eins kyrr og ég gat og lokaði augunum, ég beið þess að vera skotinn aftur. Líkami minn skalf. Ég sá dauðann svo nærri og ég mun aldrei gleyma þessum svörtu stígvélum sem nálguðust mig. Mér leið eins og það væri dauðinn sem nálgaðist mig,“ segir Khan.