„Ég held að allt muni breytast“

Kúbverjar fagna á götum Havana í dag.
Kúbverjar fagna á götum Havana í dag. AFP

Kúbverjar hafa fagnað fregnum af auknu sambandi milli Bandaríkjanna og Kúbu í dag. Er nú vonast til þess að áætlaðar viðræður á milli þjóðanna muni breyta lífum Kúbverja til hins betra. 

Er fréttirnar bárust safnaðist fólk saman í gamla bæ Havana og fagnaði þessum sögufræga degi en í dag var sagt frá því að stjórn­völd í Banda­ríkj­un­um og á Kúbu hafa hafið viðræður um að efla bæta tengsl þjóðanna. Til að mynda munu Banda­rík­in opna sendi­ráð í höfuðborg­inni Hav­ana á næsta ári.

„Ég er með gæsahúð,“ sagði Ernesto Perez, 52 ára sem vinnur á kaffistofu í miðbænum.

Perez segist hafa heyrt fregnirnar í farsíma sínum en farsímar voru gerðir löglegir á Kúbu árið 2006, eftir að Raul Castro varð forseti. Hann tók við eftir að eldri bróðir hans Fidel sagði af sér vegna slæmrar heilsu. 

„Þetta eru mjög mikilvægar fréttir sem munu breyta lífum okkar allra. Ég held að allt muni breytast. Margt getur breyst og er það til góðs,“ bætti hann við. 

Margir Kúbverjar voru í vinnu eða skóla þegar þeir fengu fréttirnar en viðræður um aukin tengsl þjóðarinnar voru tilkynntar á sama tíma í Washington og Havana. 

Mörgum kom tilkynningin á óvart þrátt fyrir merki um þíðu á milli þjóðanna upp á síðkastið. 

Bankastarfsmaðurinn Amelia Gutierrez, sem er komin sjö mánuði á leið, sagðist hafa fengið kökk í hálsinn þegar hún áttaði sig á því að barnið hennar myndi alast upp í nýjum kafla í sambandi Bandaríkjanna og Kúbu. 

„Hann þarf ekki að lifa undir sömu spennu og hefur verið milli þjóðanna síðustu 50 ár,“ segir Gutierrez sem er 28 ára gömul. 

„Þetta eru frábærar fréttir. Þetta er sögulegur dagur. Kúba og Bandaríkin eru nágrannar. Það er engin ástæða fyrir því að löndin ættu að eiga slæmt samband,“ sagði hún í samtali við AFP. 

„Aðeins Guð veit hvort að hlutirnir verði betri hægt eða hratt. En þetta er stórt fyrsta skref.“

Marlon Torrez er sextán ára gamall. Hann segist vona að breytingarnar muni laga efnahagslíf Kúbu sem hefur aldrei náð sér á strik síðan Kúbverjar misstu stuðninginn frá Sovétríkjunum.

„Þetta gæti opnað margar dyr, sérstaklega þegar það kemur að viðskiptum á milli þjóðanna sem eru nágrannar,“ sagði Torrez.

Margir Kúbverjar hafa jafnframt fagnað lausn fanganna þriggja sem komu aftur til Kúbu í dag. Þeir höfðu verið í fangelsi í fimmtán ár í Bandaríkjunum og dæmdir fyrir njósnir.

Mennirnir  þrír hafa verið kallaðir „hetjur lýðveldisins“ af stjórnvöldum í Havana fyrir að berjast gegn and-kommúnískum hópum kúbverska útlaga. Bandaríkin og Kúba skiptu á þeim og Bandaríkjamanninum Alan Gross og ónefndum leynilögreglumanni sem var í haldi á Kúbu í tuttugu ár. 

„Það gleður mig alveg ótrúlega að þessir menn geti snúið aftur til fjölskyldna sinna á Kúbu. Það er kominn tími til,“ sagði Bertha Perez, 58 ára bókasafnsfræðingur í Havana. 

Hugo Cansio er bæði kúbverskur og bandarískur. Hann rekur tímarit sem heitir On Cuba og segir að löngu sé kominn tími á viðræður milli þjóðanna tveggja. 

„Sum okkar hafa unnið mjög lengi í mjög mörg ár til þess að skapa breytingar á milli Bandaríkjanna og Kúbu,“ sagði hann í tölvupósti til AFP. 

„Í dag er frábær dagur, sögulegur dagur og upphaf á nýjum draumi og nýjum tækifærum fyrir alla Kúbverja.“

Kúbverskir alþingismenn hlusta á ávarp forsetans í dag.
Kúbverskir alþingismenn hlusta á ávarp forsetans í dag. AFP
Kúbverjar fylgjast með ávarpi forsetans.
Kúbverjar fylgjast með ávarpi forsetans. AFP
Kúbverjarnir sem hafa verið í haldi í Bandaríkjunum síðustu fimmtán …
Kúbverjarnir sem hafa verið í haldi í Bandaríkjunum síðustu fimmtán árin. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert