New York-ríki hefur ákveðið að banna gasvinnslu með bergbroti. Eftir sex ára rannsóknarvinnu er niðurstaða umhverfis- og heilbrigðissérfræðinga ríkisins að enn sé of mörgum spurningum ósvarað um hvort að bergbrot sé öruggt fyrir heilsu fólks og umhverfið.
Gríðarlegur uppgangur hefur verið í jarðefnaeldsneytisiðnaðinum í Bandaríkjunum eftir að fyrirtæki hófu að nýta bergbrot til að vinna gas úr bergi neðanjarðar. Aðferðin hefur þó verið umdeild og hefur því verið haldið fram að bergbrot valdi mengun á lofti, jarðvegi og grunnvatni sem geti haft skaðleg áhrif á heilsu fólks sem býr í nágrenni vinnslunnar.
Umhverfisverndarsamtök sem hafa barist gegn bergbroti af þessum ástæðum fagna ákvörðun New York-ríkis en landeigendur sem búa nærri ríkismörkunum við Pennsylvaníu eru ekki eins ánægðir. Þeir hafa séð nágranna sína handa ríkjamarkanna græða á tá og fingri af því að selja land sitt undir gasvinnslu með bergbroti.
Frétt bandaríska ríkisútvarpsins NPR um bannið við bergbroti í New York