Forsvarsmenn Sony Pictures segja að þeir séu að skoða aðrar leiðir til að gefa út gamanmyndina The Interview eftir að hafa hætt við frumsýningu hennar í kjölfar tölvuárása sem stjórnvöld í Norður-Kóreu eru sögð bera ábyrgð á.
Talsmenn Sony segja að fyrirtækið hafi aðeins hætt við að frumsýna myndina á jóladag eftir að kvikmyndahús lýstu því yfir að þau vildu ekki sýna myndina. Nú sé verið að skoða aðrar leiðir til að gefa hana út. Þetta kemur fram á vef breska ríkisútvarpsins.
Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, sagði í gær að það hefðu verið mistök að hætta við frumsýninguna. „Við getum ekki búið í samfélagi þar sem einhver einræðisherra einhvers staðar getur farið að stunda ritskoðun í Bandaríkjunum,“ sagði forsetinn.
Hann hét því jafnframt að bandarísk stjórnvöld myndu bregðast við tölvuárásinni á viðeigandi hátt.
Bandaríska alríkislögreglan (FBI) segir að stjórnvöld í N-Kóreu beri ábyrgð á árásinni. Þessu neita norðurkóresk yfirvöld.
Gamanmyndin The Interview fjallar um morð á Kim Jong-un, leiðtoga Norður-Kóreu.