Sony hyggst gefa myndina út

AFP

Forsvarsmenn Sony Pictures segja að þeir séu að skoða aðrar leiðir til að gefa út gamanmyndina The Interview eftir að hafa hætt við frumsýningu hennar í kjölfar tölvuárása sem stjórnvöld í Norður-Kóreu eru sögð bera ábyrgð á.

Talsmenn Sony segja að fyrirtækið hafi aðeins hætt við að frumsýna myndina á jóladag eftir að kvikmyndahús lýstu því yfir að þau vildu ekki sýna myndina. Nú sé verið að skoða aðrar leiðir til að gefa hana út. Þetta kemur fram á vef breska ríkisútvarpsins.

Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, sagði í gær að það hefðu verið mistök að hætta við frumsýninguna. „Við getum ekki búið í samfélagi þar sem einhver einræðisherra einhvers staðar getur farið að stunda ritskoðun í Bandaríkjunum,“ sagði forsetinn. 

Hann hét því jafnframt að bandarísk stjórnvöld myndu bregðast við tölvuárásinni á viðeigandi hátt. 

Bandaríska alríkislögreglan (FBI) segir að stjórnvöld í N-Kóreu beri ábyrgð á árásinni. Þessu neita norðurkóresk yfirvöld.

Gamanmyndin The Interview fjallar um morð á Kim Jong-un, leiðtoga Norður-Kóreu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert