Breytt viðhorf í Kína til Norður-Kóreu

Síðan Kim Jong-Un tók við völdum í Norður Kóreu hafa …
Síðan Kim Jong-Un tók við völdum í Norður Kóreu hafa samskipti ríkisins við Kína farið versnandi og nú er talið að þau séu í nokkru frosti. AFP

Síðustu áratugi hefur Kína staðið fast við bakið á Norður-Kóreu í gegnum súrt og sætt, en raddir sem telja framkomu stjórnvalda þar óverjandi verða nú háværari meðal hátt settra stjórnenda í her landsins. Segir einn hershöfðingi í kínverska hernum að Kína sé búið að koma Norður-Kóreu of oft til bjargar. Þá segir hann að það sé bara tímaspursmál hvenær ríkisstjórn sem fólkið styðji ekki falli.

Það er hershöfðinginn Wang Hongguang sem setur þessa skoðun sína fram í grein í ríkisreknu blaði, en einnig var hún birt á opinberri heimasíðu hersins. Í frétt New York Times segir að þetta bendi til þess að samskipti ríkjanna hafi versnað umtalsvert upp á síðkastið, en hingað til hefur Kína umborið tilviljanakennda framkomu ríkisins og stutt með ýmsum ráðum.

„Kína hefur þrifið upp eftir Norður-Kóreu of oft,“ segir Wang í greininni og bætir við: „Það þarf þó ekki að vera þannig í framtíðinni.“ Bendir hann á að Norður-Kórea hafi meðal annars brotið varnarsamning ríkjanna með því að upplýsa Kína ekki um kjarnorkuáætlun sína sem hefur aukið óstöðugleika í Norðaustur-Asíu umtalsvert.

Orð Wangs eru talin hafa talsverða vigt, en hann hefur óflekkað mannorð innan kommúnistaflokksins og faðir hans var auk þess vel liðinn hershöfðingi í her Maos Zedong við lok seinni heimstyrjaldarinnar.

Ekki er vitað með vissu hversu vinsæl þessi skoðun Wang er innan kínverska hersins, en heimildarmaður New York Times segir að aldrei áður hafi þessi skoðun notið jafn mikils stuðnings og nú.

Kína á þó erfitt með að taka sér stöðu með Bandaríkjunum í að gagnrýna Norður-Kóreu opinberlega í ljósi samkeppni og vantrausts milli ríkjanna. Segir heimildarmaður blaðsins að þá gæti Kína heldur aldrei umborið sameinað ríki á Kóreuskaganum sem væri bandalagsþjóð Bandaríkjanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert