Tíu manns að minnsta kosti slösuðust í dag, þar af tveir alvarlega, þegar ökumaður sendiferðabíls ók inn í jólamarkað í borginni Nantes í Frakklandi. Haft er eftir sjónarvottum í frétt AFP að maðurinn hafi síðan stungið sjálfan sig með hníf í það minnsta níu sinnum og valdið sjálfum sér alvarlegum meiðslum.
Fram kemur í fréttinni að ekki liggi fyrir hvers vegna maðurinn hafi ekið inn í jólamarkaðinn. Verknaðurinn virtist enn sem komið væri ekki vera af trúarlegum ástæðum. Atvikið átti sér stað aðeins degi eftir að karlmaður ók á gangandi vegfarendur í frönsku borginni Dijon hrópandi „Allahu Akbar“ eða Allah er mikill. 13 hlutu alvarleg meiðsli. Maðurinn á við alvarleg andleg veikindi að stríða samkvæmt fréttinni.