Netsamband komið á að hluta

AFP

Netið er komið á að hluta í Norður-Kóreu en nánast ekkert netsamband var í landinu í gær. Ekki hefur verið upplýst um hvað olli því að nánast allt netsamband datt niður um tíma í Norður-Kóreu en einhverjir sérfræðingar telja að slökkt hafi verið á netsambandinu.

Á sama tíma hafa stjórnvöld í Bandaríkjunum tilkynnt um að netárásum á Sony Pictures verði svarað. Bandarísk yfirvöld hafa hins vegar neitað að tjá sig um hvort Bandaríkjamenn hafi átt aðild að því að slökkva á netsambandi N-Kóreu í gær, að því er segir í frétt BBC.

Kínversk stjórnvöld fordæmdu í gær allar netárásir en sögðu engar sannanir vera fyrir því að Norður-Kóreumenn hefðu staðið á bak við árásina á afþreyingarfyrirtækið Sony í Bandaríkjunum. Talsmaður utanríkisráðuneytisins í Peking, Hua Chunying, minntist ekki á beiðni Bandaríkjamanna um aðstoð Kínverja við að finna hakkarana sem gerðu árásina. En hann sagði að kanna yrði allar staðreyndir áður en menn kvæðu um dóm.

Hakkararnir sögðust hafa gripið til aðgerða vegna nýrrar gamanmyndar þar sem lýst er morðtilraun við Kim Jong-un, leiðtoga N-Kóreu, einnig er gert mikið gys að honum. Þeir hótuðu hryðjuverkum ef myndin færi í almenna dreifingu og hættu þá bandarísk bíóhús við að sýna myndina. Sony kannar nú leiðir til að gefa hana út á netinu.

Sérfræðingur í netárásum segir að ráðamenn í Norður-Kóreu hafi gert út mikið lið sem annist netárásir. Aðrir efast um að N-Kóreumenn ráði yfir nægilegri þekkingu til að stunda árásir eins og Sony varð fyrir. En afar erfitt mun vera að sannreyna hverjir séu á bak við netárásir.

Norður-Kóreumenn hafa hótað að svara með ótilgreindum aðgerðum ef Barack Obama Bandaríkjaforseti refsi þeim fyrir árásina, t.d. með því að setja ríkið á lista yfir lönd sem styðji hryðjuverkamenn. Í gærkvöldi hófst fundur í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna þar sem búist var við harkalegri gagnrýni á Norður-Kóreu vegna mannréttindabrota. Hugsanlegt er að stjórn Kims verði kærð hjá Alþjóðaglæpadómstólnum í Haag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert