Úkraínska þingið samþykkti í dag að falla frá hlutleysi landsins og er það talið stórt skref í átt að því að Úkraína gerist aðili að Atlantshafsbandalaginu (NATO). Rússneskir ráðamenn gagnrýna ákvörðunin harðlega og segja hana geta leitt til þess að Úkraína verði hernaðarlegur andstæðingur Rússa.
Úkraínumenn tóku upp hlutleysi árið 2010 undir þrýstingi frá Rússum en þeir höfðu falast eftir inngöngu í NATO fyrst eftir að Sovétríkin liðu undir lok. Hlutleysið hefur komið í veg fyrir að Úkraína gengi í nokkur hernaðarbandalög. Petro Porosjenkó, forseti landsins, hefur hins vegar heitið því að koma Úkraínu undir hervernd vesturveldanna.
Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, krafðist þess í dag að stjórnvöld í Kænugarði hættu að ögra og samþykkja aðgerðir sem ykju aðeins á spennuna milli ríkjanna tveggja. Dmitrí Medvedev, forsætisráðherra, gekk enn lengra og sagði að sækti Úkraína um aðild að NATO þýddi það að Úkraínumenn yrðu hernaðarandstæðingur Rússa.
„Og land okkar verður að svara þeim,“ skrifaði Medvedev á Facebook.