Frans páfi notaði tækifærið í gær í jólaræðu á fundi með kardínálum til að gagnrýna harkalega skriffinna í Páfagarði. Sagði hann suma kirkjunnar menn vera soltna í völd og þeir væru „þjakaðir af andlegum Alzheimer-sjúkdómi“. Ljóst þykir að margir andstæðingar páfa muni taka ummælin óstinnt upp.
Frans sagði að í Páfagarði væri einnig mikið um „tilvistarlegan geðklofa“ og „félagslega sýndarmennsku“ sem ættu sök á því að „hljómsveitin spilaði falskt“. Hann varaði menn við græðgi, eigingirni og hrokafullu fólki sem áliti að það væri ódauðlegt. Slíku fólki væri hollt að heimsækja kirkjugarðana og sjá grafir þeirra sem hefðu verið haldnir sömu firru.
Páfi, sem er 78 ára og fæddur í Argentínu, er þekktur fyrir að vera berorður og hefur áður gert harða hríð að öðrum ráðamönnum í Páfagarði en þar hafa komið upp mörg hneykslismál á seinni árum og áratugum, bæði í kynferðismálum og fjármálum. Þar eru menn af mörgu þjóðerni en Ítalir hafa frá fornu fari verið langfjölmennastir og hafa sumir myndað með sér öflugar valdaklíkur. Oft hafa heyrst sögur af hörðum innanbúðarátökum á staðnum.
Frans sagði marga í Páfagarði lifa tvöföldu lífi, út á við væru þeir heiðvirðir en bak við tjöldin stunduðu þeir ósiðlegt líferni. Menn væru oft „þrælar ástríðna sinna“ en hjartað væri kalt hjá sumum. Einnig væru margir fullir af öfund í garð annarra, hann sagðist aumka þá sem gleddust yfir því að sjá aðra falla af tindi.
Hvatti páfi kardínálana rauðklæddu til að aðstoða sig við að ráða bót á þessu ástandi en sjónarvottar segja að kirkjuhöfðingjarnir hafi setið svipbrigðalausir undir ræðunni. Frans vék einnig að söguburði, slúðri þeirra sem væru reiðubúnir að stinga menn í bakið en væru „hugleysingjar sem ekki hafa þor í sér til að segja hreinskilnislega hvað þeim býr í brjósti“.