Þrettán ára nígerísk stúlka segist hafa verið þvinguð til að bera belti með sprengjum af vígamönnum Boko Haram-hryðjuverkasamtakanna. Hún hafi hins vegar neitað að kveikja á sprengjunum.
Í frétt Sky-sjónvarpsstöðvarinnar segir að faðir stúlkunnar hafi gefið samtökunum dóttur sína. Hún hafi hins vegar sagt leiðtogum samtakanna að hún vildi ekki verða sjálfsmorðsárásarmaður.
Stúlkan heitir Zahara'u Adam. Hún segist hafa leyft meðlimum Boko Haram að festa sprengjubeltið á sig af því að þeir hefðu hótað að grafa hana lifandi.
Hún var svo flutt á markað í borginni Kano í norðurhluta Nígeríu. Með í för voru tvær aðrar stúlkur. Þær kveiktu á sprengjunum og létu lífið í árásinni. Fjórir létust á markaðnum en árásin var gerð 10. desember.
Zahara'u segist hafa orðið hrædd er hún sá hvað gerðist er hinar stúlkurnar kveiktu í sprengjunum. Hún særðist sjálf og kom sér á spítala þar sem hún var handtekin af lögreglu.
„Faðir minn fór með okkur út í skóg þar við vorum umkringd byssumönnum. Ég var spurð hvort ég vildi fara til himna, þegar ég svaraði sögðu þeir að ég yrði að taka þátt í sjálfsmorðssprengjuárás og ef ég reyndi að flýja myndu þeir drepa mig,“ sagði stúlkan á blaðamannafundi sem lögreglan hélt til að sýna fram á þær aðferðir sem Boko Haram notar.