Taka mun tíma að græða sárin í Skotlandi eftir þjóðaratkvæðið á árinu um það hvort lýsa ætti yfir sjálfstæði eða vera áfram hluti af breska konungdæminu. Þetta kom fram í árlegu jólaávarpi Elísabetar Bretadrottningar sem sýnt var í breska ríkisútvarpinu BBC í dag. Meirihlutinn greiddi atkvæði með því að Skotland yrði áfram hluti konungdæmisins en tvísýnt var um úrslitin.
Drottningin fagnaði ennfremur þeim árangri sem náðst hefði í friðarumleitunum á Norður-Írlandi í kjölfar þess að samkomulag í þeim efnum var undirritað fyrr í vikunni. Hún minntist þess einnig að öld væri liðin frá því að breskir og þýskir hermenn gerðu vopnahlé í fyrri heimsstyrjaldarinnar til þess að fagna jólunum saman. Lýsti hún atburðinum sem stórmerkilegum sem sýndi að friður væri alltaf mögulegur.
„Stundum virðist sem lítill möguleiki sé á sáttum þegar staðið er frammi fyrir stríði og ágreiningi. En vopnahléið um jólin fyrir öld síðan minnir okkur á að friður og vinsamnleg samskipti eiga sér varanlegan samastað í hjörtum karla og kvenna.“ Drottningin minntist einnig á Ebólu-faraldurinn í vesturhluta Afríku og sagði hugrekki heilbrigðisstarfsfólks sem farið hefði á vettvang til þess að berjast gegn honum og lagt sjálft sig þannig í mikla hættu hafa snert mjög við sér.
Jólaávarpi Elísabetar Bretadrottningar er sjónvarpað árlega og horfa milljónir manna um allan heim á það. Einkum í Bretlandi og samveldislöndum þess. Um er að ræða eina af fáum ræðum sem hún semur sjálf án aðkomu ráðherra í ríkisstjórn Bretlands.