Fyrir tíu árum, er mikil flóðbylgja gekk á land á Taílandi, stóð áströlsk móðir frammi fyrir gríðarlega erfiðri ákvörðun. Hún þurfti að velja hvorum syni sínum hún ætti að bjarga.
Í viðtali við Sky-sjónvarpsstöðina kemur fram að Jillian Searle hafi verið á ferðalagi í Phuket á Taílandi ásamt eiginmanni sínum og tveimur sonum, Lochie, sem var fimm ára, og Blake sem var ársgamall.
„Ég sá allt þetta vant koma yfir vegginn við hótelið. Ég bara greip í hönd Lochie og hélt á Blake í fanginu. Svo fór ég að hlaupa undan vatninu,“ segir móðirin í viðtalinu.
Um 8.000 manns létu lífið er flóðbylgjan gekk á land í Taílandi jólin 2004.
Eiginmaður Searle var á hótelherberginu en hún og synirnir við sundlaugina er vatnið steyptist yfir þau. Hún vissi að þau myndu öll drukkna ef hún héldi áfram á báðum sonum sínum. Hún varð því að velja hvorum þeirra hún myndi reyna að bjarga. Hún sleppti takinu á eldri drengnum, Lochie.
„Ég fylltist sektarkennd. Ég hugsaði: Hvað hef ég eiginlega gert? Ég hugsaði líka hvernig ég gæti haldið áfram að lifa og að ég myndi hugsa um hvað hefði gerst ef ég hefði reynt að halda í hann.“
Unglingsstúlka náði taki á Lochie eftir að móðir hans sleppti honum en hún gat ekki haldið í hann. Searle segist þá hafa haldið að öll von væri úti.
En kraftaverk gerðist. Lochie litli náði taki á dyrakarmi og hékk á honum í tvo klukkutíma þar til honum var bjargað.
Lochie er nú fimmtán ára og býr ásamt móður sinni og bróður í Perth í Ástralíu. „Þegar ég vissi að hún hefði sleppt mér þá fannst mér það í lagi, það var skiljanlegt,“ segir drengurinn við Sky. „Blake var yngri og hann hefði ekki átt neina möguleika á að lifa af. Ég var hins vegar eldri. Þetta var skynsöm ákvörðun hjá mömmu.“