Tyrkneskur dómstóll sleppti í dag 16 ára gömlum unglingspilt sem var handtekinn fyrir að móðga Recep Tayyip Erdogan, forseta landsins.
Atvikið þykir renna stoðum undir þær skoðanir að Erdogan haldi áfram í átt að aukinni valdboðsstefnu.
Pilturinn, sem heitir Mehmet Emin Altunses, var sleppt lausum í kjölfar athugasemda lögmanns hans. Tyrkneska fréttastofan Anatolia segir enn mögulegt að réttað verði í máli hans.
Foreldrar Altunses tóku á móti honum er hann yfirgaf dómshúsið í höfuðborginni Ankara. Drengurinn faðmaði móður sína en um leið lýsti hann því yfir að hann muni ekki láta af pólitískum aðgerðum. Hann segir að hann sé ekki hryðjuverkamaður heldur hermaður Mustafa Kemal Ataturk, sem er stofnandi Tyrklands.
„Það kemur keki til greina að stíga til baka og af stígnum, við munum halda áfram á sömu braut,“ sagði hann.
Á aðfangadag hélt Altunses ræðu í borginni Konya, sem er höfuðvígi Réttlætis- og þróunarflokksins, AKP, sem er flokkur Erdogans, en flokkurinn á rætur í íslam. Þar sakaði pilturinn Erdogan og stjórnarflokkinn um spillingu.
Síðdegis á miðvikudag var sóttu lögreglumenn piltinn þar sem hann var staddur í miðri kennslustund í skólanum sínum. Hann var færður á lögreglustöð þegar í stað þar sem hann var yfirheyrður. Dómari gaf í framhaldinu út handtökuskipun á hendur Altunses.