Hersveitir Kúrda ráða nú rúmlega 60% borgarinnar Kobane í norðurhluta Sýrlands en bardagar hafa staðið yfir um borgina undanfarna mánuði. Kúrdar hafa unnið á að undanförnu en vígamenn hryðjuverkasamtakanna Ríkis íslams látið undan síga.
Bærinn hefur smám saman orðið táknrænn fyrir baráttuna gegn Ríki íslams segir í frétt AFP en samtökin hafa lagt undir sig víðfem landsvæði bæði í Sýrlandi og Írak og framið þar ýmis gróf ofbeldisverk. Ríki íslams hóf mikla sókn um miðjan september með það að markmiði að hertaka Kobane og réðu samtökin um tíma helmingi bæjarins.
Kúrdar hafa hins vegar komið í veg fyrir studdir af loftárásum Bandaríkjamanna og fleiri ríkja og liðsauka frá Kúrdum í Írak. Vígamenn Ríkis íslams hafa að undanförnu hörfað víða um borgina. Meðal annars hafa þeir yfirgefið fyrrum höfuðstöðvar Kúrda í borginni sem þeir náðu fyrir nokkrum vikum síðan.
Fram kemur í frétt AFP að loftárásir Bandaríkjamanna og bandalagsþjóða þeirra hafi skipt sköpum í árangri Kúrda. Vígamenn Ríkis íslams notist einkum við göng til þess að komast á milli staða í borginni. Hryðjuverkasamtökin hafa sömuleiðis gripið til þess örþrifaráðs að tefla fram sjálfsmorðsárásarmönnum gegn Kúrdum.
Rúmlega eitt þúsund manns hafa til þessa látið lífið í átökum í Kobane. Flestir úr röðum vígamanna Ríkis íslams.