699 manns um borð í vélunum þremur

Hvarf þotu AirAsia er enn eitt áfallið fyrir malasísk flugfélög en um er að ræða þriðja óhappið tengt malasískum flugfélögum síðan í mars. Flugvél Malaysia Airlines, MH370, hvarf á leiðinni frá Kuala Lumpur í mars með 239 manns um borð og í júlí var farþegaþota sama flugfélags, MH17, skotin niður yfir Úkraínu og létust allir um borð, alls 298 manns. Alls eru þetta 699 manns.

Fjölmörg ríki hafa boðið fram aðstoð við leit að þotu AirAsia sem hvarf á Jövuhafi á leið milli Indónesíu og Singapúr skömmu fyrir miðnætti í gær að íslenskum tíma. Samband flugumferðarstjórnar við flug QZ8501 rofnaði klukkan 6.24 að staðartíma í morgun.

Alls eru 162 um borð í flugvélinni sem er af gerðinni Airbus A320-200. Sam­band rofnaði við flugmennina um klukku­tíma eft­ir flugtak á alþjóðaflug­vell­in­um í Sura­baya á indónesísku eyjunni Jövu. Þá höfðu flugmennirnir sam­band við flug­um­ferðar­stjórn og óskuðu eft­ir heim­ild til þess að breyta út af fyrri flugáætl­un og hækka flugið til þess að kom­ast yfir óveður sem var á svæðinu. Indónesísk yfirvöld stöðvuðu leit að flugvélinni tímabundið í dag vegna myrkurs og veðurs en leit hefst að nýju um miðnætti að íslenskum tíma, í birtingu á leitarsvæðinu.

Alls eru 155 Indónesar um borð í þotunni, þrír frá Suður-Kóreu og einn frá Singapúr, Malasíu, Bretlandi og Frakklandi. Sá síðastnefndi er aðstoðarflugmaður farþegaþotunnar.

Skömmu áður en vélin hvarf óskaði flugstjórinn eftir því að fá að hækka flugið um sex þúsund fet, í 38 þúsund fet, vegna ókyrrðar í lofti.

Samgönguráðherra Indónesíu, Djoko Murjatmodjo, segir að flugumferðarstjórn hafi samþykkt að flugvélinni yrði flogið meira til vinstri. „En ekki var hægt að verða við beiðni þeirra um að fara í 38 þúsund feta hæð úr 32 þúsund fetum á þeim tíma sem beiðnin kom vegna flugumferðar. Það var flugvél fyrir ofan vélina og fimm mínútum síðar hvarf flugvélin af ratsjám,“ sagði Murjatmodjo á blaðamannafundi í dag. Hann segir að veðurratsjár sýni að veðrið var slæmt á þessum slóðum og mikið af skýjum.

Flugið var á vegum AirAsia Indonesia, sem er dótturfélag malasíska flugfélagsins AirAsia.

Á vefnum Allt um flug kemur fram að þotan hafi horfið af ratsjá milli Jövu og Borneó sem er á svipuðum slóðum og þar sem hin malasíska farþegaþotan, flug MH370, hvarf hinn 7. mars yfir Taílandsflóa. Á korti sést að 1.390 kílómetrar skilja að staðina tvo þar sem vélarnar hurfu.
 

Kort sem sýnir hvar þota AirAsia hvarf
Kort sem sýnir hvar þota AirAsia hvarf AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert