Eldur kom upp í mosku í Svíþjóð snemma í morgun. Er þetta í annað sinn á innan við viku sem kveikt er í bænahúsi múslíma í landinu.
Ekki er talið að neinn hafi slasast er eldurinn kom upp um kl. 3 í nótt í bænum Eslov. Fljótt tókst að ráða niðurlögum eldsins og olli hann aðeins minniháttar skemmdum.
Lögreglan segir að verið sé að rannsaka upptök eldsins og talsmaður slökkviliðsins segir allt benda til þess að um íkveikju hafi verið að ræða.
Á jóladag var kveikt í mosku í Svíþjóð og slösuðust fimm í þeim eldsvoða.