Hröpuðu, hurfu og voru skotnar niður

Indverski listamaðurinn Sudarsan Pattnaik leggur lokahönd á listaverk úr sandi …
Indverski listamaðurinn Sudarsan Pattnaik leggur lokahönd á listaverk úr sandi og spyr: Hvar eru þau? AFP

Hafi allir sem voru um borð í þotu AirAsia farist hafa 924 manns látist í flugslysum í ár. Flugslysin hafa þó aldrei verið færri en fimm farþegaþotur hafa hrapað, horfið sporlaust eða verið skotnar niður.

Umheimurinn hefur í ár fylgst í beinni útsendingu með umfangsmiklum og örvæntingarfullum leitaraðgerðum að farþegaþotum. Sannleikurinn er ógnvænlegur: Ein þota hvarf sporlaust, önnur var skotin niður, sú þriðja hrapaði í vonskuveðri í Taívan og í sömu viku hrapaði önnur í Malí og sú fjórða í Jövuhaf á sunnudag.

Flugöryggi hefur verið tekið til gagngerrar endurskoðunar í kjölfar slysanna, ekki síst vegna þeirrar staðreyndar að staðsetningartæki vélanna hafa ekki getað aðstoðað við að finna þær.

„Mér var alltaf illa við að fljúga en nú er sú hræðsla raunverulegri,“ segir Marie Lefebvre, viðskiptakona frá Bankok í Taílandi. Hún segist nú taka róandi áður en flýgur. Líklega er hún ekki eina manneskjan sem hefur orðið flughræddari þetta árið.

Og ekki að ástæðulausu.

Sönnunargagn A: Vél Malaysian Airlines, MH370 hvarf sporlaust í mars og ekkert hefur til hennar spurst. Er hvarf hennar eitt það dularfyllsta í flugsögunni. Um borð voru 239 manns. Enn er ekki vitað hvað varð til þess að vélin sveigði langt af fyrirhugaðri flugleið en vísbendingar eru um að henni hafi verið flogið yfir Indlandshaf. Ekki er hægt að útiloka hryðjuverk eða flugrán.

Fjórum mánuðum síðar var vél frá sama flugfélagi, flug MH17, skotin niður yfir austurhluta Úkraínu. Allir sem voru um borð, 298 manns, létust. Vestrænar þjóðir saka Rússa um að hafa útvegað uppreisnarmönnum á svæðinu vopn sem notuð voru til að skjóta vélina niður.

Í vikunni þar á eftir varð annað stórt flugslys er vél TransAsia Airways lenti í óveðri skammt frá Taívan og í sömu vikunni hrapaði vél Air Algerie í Malí af ókunnum orsökum. Samanlagt fórust 164 í þessum flugslysum. Mörgum þótti nóg um og svo virtist sem flugvélar væru hreinlega að hrynja niður úr himninum.

Síðastliðinn sunnudag varð svo enn eitt stórslysið er vél AirAsia hvarf af ratsjá. 162 voru um borð. Brak úr vélinni hefur nú fundist í Jövuhafi og talið er líklegt að allir sem voru um borð hafi farist.

Þó að það hljómi ótrúlega hefur flugöryggi aukist mikið á árinu 2014. Átta flugslys þar sem stórar farþegavélar komu við sögu urðu á árinu og hafa aldrei verið færri. Á árinu hafa verið flognar nokkrar milljónir flugferða og milljarðar farþega flogið um háloftið.

 Í fyrra voru slík flugslys 15 og frá árinu 1946 hafa þau að meðaltali verið 32 á ári.

„Það er svo öruggt að fljúga núna að þau slys sem verða eru mjög dularfull því að vélar hrapa aðeins við gríðarlega óvenjulegar aðstæður,“ segir Gerry Soejatman, ráðgjafi í flugmálum frá Indónesíu. „Því er þetta ár svo óvenjulegt. Slys eru svo sjaldgæf að þau sem verða fá mikla athygli.“

Staðfest er að 762 létust í flugslysum á árinu og hafi allir sem voru um borð í vél AirAsia farist hækkar sú tala í 924. Í fyrra létust 224 í flugslysum.

Þrátt fyrir þessar hamfarir í fluginu hefur flugferðum og flugfarþegum ekki fækkað. Reyndar jókst sú samanlagða vegalengd sem farþegar flugu um 5,8% á tímabilinu janúar til október miðað við sama tímabil í fyrra.

Eitt það furðulegasta við öll þessi flugslys er að heil farþegaþota geti í árið 2014 horfið án nokkurra vísbendinga, í heimi þar sem ítarlega er fylgst með öllum. Til stendur að bæta úr þessu á næstunni, þ.e. að nýjar viðmiðunarreglur verði settar um staðsetningarbúnað í flugvélum.

Til greina kemur að slíkur búnaður verði að senda frá sér merki um staðsetningu vélar á hverri mínútur eftir að henni er flogið af leið og hugsanlega á korters fresti sé hún á leið.

Það kom mörgum á óvart í kjölfar hvarfs MH370 að ekki væri fylgst betur með ferðum flugvéla, segir Raymond Benjamin, yfirmaður Alþjóðlegu flugmálastofnunarinnar, International Civil Aviation Organization (ICAO). „En nú hefur flugiðnaðurinn náð samstöðu um að þróa alþjóðlegt eftirlitskerfi til að bæta úr við svipaðar aðstæður og til að auðvelda leit og björgun ef slys verða.“

ICAO er einnig að skoða flug yfir stríðshrjáð svæði og hvort að upplýsingum um átök sé komið nægilega vel á framfæri og við þeim varað. Tillögur um þetta verða lagðar fram á fundi stofnunarinnar í febrúar.

Tom Bunn, stofnandi SOAR, bandarísks fyrirtækis sem veitir flughræddum aðstoð, segir að myrkar hugsanir hafi komið sér fyrir í höfði margra flugfarþega eftir þetta ár.

„Vantraustið er svo mikið að ég held að það muni hafa langtíma áhrif. Flughræddir lýsa slysunum sem sínum verstu martröðum,“ segir Bunn.

Fjölskyldur farþega AirAsia fengu fréttir af því í dag að …
Fjölskyldur farþega AirAsia fengu fréttir af því í dag að líklega hefðu allir um borð farist. AFP
Leitað að AirAsia.
Leitað að AirAsia. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert