Lögreglan í bandaríska smábænum Okeechobee í Flórídaríki fékk á dögunum símtal frá föður í bænum sem óskaði nærveru lögreglumanns á meðan hann refsaði dóttur sinni. Lögreglumaður var sendur á vettvang og fylgdist með því þegar faðirinn flengdi tólf ára dóttur sína fjórum sinnum á rasskinnarnar.
Forsagan er sú að faðirinn, Dale Garcia, kom heim úr verslunarleiðangri í Walmart og sá þá að tólf ára dætur hans tvær höfðu verið að rífast. Önnur þeirra læsti sig inni í herbergi sínu og hin notaði hníf til að opna inn í herbergið.
Hringdi því faðirinn á lögregluna því hann vildi refsa þeirri sem notaði hnífinn. Stúlkurnar viðurkenndu fyrir lögreglumanninum að þær hefðu verið að rífast um spjaldtölvu og stóð hann hjá á meðan faðirinn flengdi dóttur sína. Síðar skrifaði hann í lögregluskýrslu um málið: „Þar sem enginn glæpur hefur verið framinn er málinu lokið.“
Í samtali við fréttastofuna WPTV segir lögreglumaðurinn Noel Stephen að símtöl sem þessi séu ekki einsdæmi og reyni lögreglumenn að sinna þeim séu ekki önnur mál sem bíði.