Leynibyrgi drottningar á netinu

Margrét Þórhildur Danadrottning virðist ekkert sérlega örugg í neyðarbyrginu.
Margrét Þórhildur Danadrottning virðist ekkert sérlega örugg í neyðarbyrginu. Ljósmynd/ Johannes Jansson - norden.org

Leynibyrgið sem ætlað er að vernda drottningu og forsætisráðherra Danmerkur á tímum stríðs eða hryðjuverka er ekki svo leynilegt eftir allt saman. Berlinske greinir frá því í dag að hægt sé að finna byrgið á fáeinum sekúndum með einfaldri leit á veraldarvefnum.

Ekki virðast hafa verið gerðar miklar tilraunir til þess að fela byrgið fyrir almenningi. Með nokkrum smellum og hjálp landakortaþjónustu veraldarvefsins, s.s. Google Maps, má auðveldlega finna leynibyrgið „Regan Øst“ sem ætlað er að skýla valdhöfunum komi til skyndilegrar hættu í landinu. Á heimasíðu ætlaðri ferðamönnum í bænum Hellebæk kemur einnig sérstaklega fram að byrgið sé staðsett nálægt bænum.

Þar með er byrgið ekki eins öruggt og erlendar hliðstæður þess og það telur varnarmála- og öryggissérfræðingurinn Jon Rahbek-Clemmensen við Syddansk-háskóla vera vandamál.

„Það endurspeglar líklega að viðeigandi yfirvöld eru ekki alltaf meðvituð um að nýir miðlar geti verið uppspretta upplýsinga. Þetta snýst ekki svo mikið um hvort Regan Øst sé öruggt eða ekki heldur frekar um að það þyrfti að hafa almenna stefnu í þessum málum,“ segir hann í viðtali við Politiken.

Regan Øst er stytting á Regeringsanlæg Øst. Það var byggt á áttunda áratug síðustu aldar til þess að hægt væri að deila ríkisstjórninni og konungsfjölskyldunni á tvo staði kæmi til stríðsástands eða hryðjuverkaárásar en byrgið á sér hliðstæðu í Regan Vest sem stendur í Kyrraskógi í Himmerland. Þannig átti að sjá til þess að Danmörk stæði ekki uppi án pólitísks eða konunglegs leiðtoga þó svo að öðru byrginu yrði eytt af óvininum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka