Áform ríkisstjórnar Íslands um að draga aðildarumsóknina að Evrópusambandinu til baka sýna fram á að áframhaldandi Evrópusamruni er ekki óumflýjanlegur, að mati Nigels Farage, formanns Breska sjálfstæðisflokksins UKIP. Hann segir að önnur ríki ættu að taka fordæmi Íslands sem hvatningu.
Í frétt á vefsíðu tímaritsins The Parliament er sagt frá þeirri yfirlýsingu Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, forsætisráðherra, um að lögð verði fram þingsályktunartillaga um að draga aðildarumsóknina að ESB til baka von bráðar.
„Þessi aðgerð íslensku ríkisstjórnarinnar og aukin andstaða Miðjarðarhafsþjóða við ESB sýnir að hugmyndinni um að áframhaldandi Evrópusamruni sé óumflýjanlegur hefur verið splundrað. Sífellt fleira fólk í Evrópu hefur annað hvort ekki áhuga á að ganga í ESB eða, eins og í Grikklandi, vilja yfirgefa evrusamstarfið alveg,“ sagði Farage um þessi áform íslensku ríkisstjórnarinnar.
Þá notaði Farage tækifærið til að hnýta í evrusamstarfið enn frekar og sagði efnahagsbata á Íslandi tilkominn vegna þess að landið hefði sinn eigin gjaldmiðil. Önnur ríki ættu að líta á Ísland sér til hvatningar.
„Grikkland og aðrar Miðjarðarhafsþjóðir eru fastar í spennitreyju óhentugrar evru og óvinsamlegs stjórnmálasambands þar sem Þýskaland ræður ríkjum. Grikkir ættu að segja sig frá evrunni, fella gengi gjaldsmiðils síns og vaxa aftur til hagsældar með útflutningi og ferðamennsku,“ sagði Farage.