„Mamma nú mun ég deyja“

Sextán ára dönsk stúlka, Calina Nielsen, þjáist af kvíða og árum saman hefur hún barist við ótta við dauðann. Hún hefur ítrekað komið til mömmu sinnar og sagt „mamma nú mun ég deyja“. Saga Nielsen er rakin í Berlingske í dag en henni hefur tekist að ná stjórn á kvíðanum.

Í greininni er meðal annars fjallað um ferðalag sem fjölskylda Nielsen ætlaði í til Ítalíu. Það reyndist þrautin þyngri að koma Calinu inn í bílinn þar sem líkami hennar neitaði að hlýða. Ef hún færi inn í bílinn yrði það hennar síðasta. Að lokum tókst að koma henni inn en hún varði nokkrum vikum innandyra í fríinu. 

Calina Nielsen segir að óttinn við dauðann hafi stýrt öllu hennar lífi og í marga mánuði gat hún ekki farið í skólann af ótta við að það yrði hennar síðasta. Hún var stöðugt hrædd og skipti þar litlu hvað hún ætlaði að gera. Hvort sem það var að fara í skólann, fara í strætó eða borða kjöt sem ekki var hakkað. Allt þetta gæti kostað hana lífið að eigin áliti.

Nielsen segir í viðtalinu að hún hafi trúað því fullkomlega að dauðinn væri á næsta leiti. Ótti sem fyrst gerði vart við sig snemma í barnæsku og magnaðist eftir því sem árin liðu. En nú hefur hún fengið aðstoð og hitt önnur ungmenni sem glíma við sama vanda. Þau hafa tekið á kvíðanum saman með aðstoð sérfræðinga og nú er Calina Nielsen loks fær um að stunda skólanám líkt og jafnaldrar hennar.

Ungar konur í Danmörku óttast mjög um geðheilsu sína og líkt og fjallað hefur verið um í Berlingske þjást margar ungar stúlkur af depurð og einmanaleika.

Frétt mbl.is

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert