„Blaðamenn greiddu hátt gjald í dag“

„Það hafa verið stöðugar hótanir síðan myndirnar voru birtar,“ sagði Richard Malka, lögmaður blaðsins Charlie Hebdo, í samtali við fjölmiðla eftir árásina í morgun. „Okkur hafa borist hótanir í átta ár. Við vorum með öryggisverði. En það er ekkert sem hægt hefði verið að gera til að verjast villimönnum með Kalashnikov-riffla.“

Útgáfa blaðsins hófst árið 1970. Árið 2006 varð blaðið að meiriháttar skotmarki fyrir íslamista þegar það endurprentaði tólf skopmyndir af Múhameð sem danska blaðið Jyllands-Posten hafði þegar gefið út.

Malka heldur áfram og rödd hans skelfur. Hann segir „brjálæði“ að beita ofbeldi „bara vegna gerðar skopmynda“.

„Blaðið verndaði aðeins tjáningarfrelsið og blaðamenn og skopmyndateiknarar greiddu hátt gjald fyrir það í dag,“ sagði Malka.

Litu á útgáfuna sem árás á trú sína

Skotárásin sem gerð var á skrifstofur blaðsins Charlie Hebdo í morgun átti sér stað eftir margra ára ádeilu í útgáfu blaðsins, útgáfu sem gerði íslamista bálreiða. Þeir litu á útgáfuna sem árás á trú sína.

Sprengjum var varpað á skrifstofu blaðsins í nóvember 2011 eftir að blaðið birti skopmynd af Múhameð spámanni. Í síðusta tölublaði blaðsins var enn deilt á íslam. Þar var áherslan lögð á höfundinn Michel Houellebecq og nýjustu bók hans Soumission. Þar sér höfundur Frakkland fyrir sér árið 2022 undir stjórn múslíma.

Lögregla gætti skrifstofu blaðsins vegna hótana sem starfsmönnum þess bárust reglulega. Tveir lögreglumenn féllu í árásinni í morgun.

Charlie Hebdo selur um 30 þúsund eintök af blaðinu í viku hverri.

AFP
Um fjörutíu manns tókst að komast lífs af undan árásarmönnunum.
Um fjörutíu manns tókst að komast lífs af undan árásarmönnunum. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert